Vanmetum ekki Íslendinga sem eru með gott lið

Rap­hael Vara­ne í Laugardalnum í kvöld.
Rap­hael Vara­ne í Laugardalnum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Rap­hael Vara­ne, miðvörður Real Madrid, mun bera fyrirliðabandið hjá heimsmeisturum Frakka gegn Íslendingum á Laugardalsvellinum annað kvöld í fjarveru markvarðarins Hugo Lloris, sem er meiddur.

Varane sat fyrir svörum á fréttamannafundi í Laugardalnum í kvöld en á honum voru nokkrir tugir franskra fréttamanna auk íslensku pressunnar.

„Við búum okkur undir mjög erfiðan leik á móti Íslendingum. Þeir hafa ekki tapað mótsleik á heimavelli í sex ár sem segir okkur að þeir eru mjög erfiðir heim að sækja og eru gríðarlega sterkir þar,“ sagði Varane.

Varane var spurður hvort veðrið á Íslandi gæti sett eitthvert strik í reikninginn hjá franska liðinu.

„Það er kalt og það er vindur. Við þurfum að aðlagast þessum aðstæðum og þetta gæti aukið á erfiðleikastuðul leiksins. En við erum tilbúnir í það,“ sagði Varane.

Fyrirliðinn var spurður af íslensku pressunni að í ljósi þess að tveir úr leikmannahópi íslenska liðsins eru án félags og þrír spila í Pepsi Max-deildinni hvort hann líti ekki á það sem skandal ef Frakkar fara ekki með sigur af hólmi annað kvöld.

„Við vanmetum ekki Íslendinga. Þeir eru með gott lið og við þurfum að hafa fyrir hlutunum. Þetta er mikilvægur leikur og við ætlum að gera allt sem við getum til að vinna hann.

Við búumst við líkamlega erfiðum leik en við ætlum að reyna að spila okkar leik. Láta boltann ganga hratt á milli okkar með góðum sendingum en við verðum að vera vel vakandi gagnvart föstu leikatriðum íslenska liðsins.“

Það var þröngt á þingi á fréttamannafundi franska landsliðsins í …
Það var þröngt á þingi á fréttamannafundi franska landsliðsins í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is