„Gefur mér mikið“

Kolbeinn Sigþórsson skallar boltann í leiknum í kvöld.
Kolbeinn Sigþórsson skallar boltann í leiknum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kolbeinn Sigþórsson lék í 90 mínútur í framlínunni gegn Frökkum í kvöld. Hann sagði frammistöðu íslenska liðsins í leiknum hafa verið góða að mörgu leyti þótt liðið hafi þurft að sætta sig við tap. 

Fyrir Kolbein er mikill áfangi að geta spilað heilan leik gegn heimsmeisturunum eftir allt sem á undan er gengið hjá honum. Um tíma var allt útlit fyrir að ferillinn væri á enda vegna þrálátra meiðsla og í því ljósi er endurkoma hans nánast eins og í Walt Disney mynd. 

„Já“ sagði Kolbeinn og hlær að samlíkingunni. „Ég er hrikalega ánægður með hvernig þetta hefur gengið hjá mér. Þegar ég lít til baka þá er magnað að vera á þeim stað að spila toppleik gegn besta liði í heimi í 90 mínútur. Ég náði líka að gefa allt í þetta allan leikinn og fannst ég ekki missa mikið niður þegar á leið. Það gefur mér mikið og er eitthvað sem ég get byggt mikið á,“ bætti Kolbeinn við. 

Hann sagði svekkjandi að fá á sig mark úr víti eftir að hafa haldið heimsmeisturunum í skefjum í klukkutíma eða svo. 

„Algerlega. Okkur fannst við vera með tak á þeim. Eftir því sem líður á leikinn vorum við í góðri stöðu. Auðvitað áttu þeir stangarskot eftir að þeir komust yfir en þá vorum við að reyna að sækja og því opnaðist oftar hjá okkur. Mér fannst þetta vera flottur leikur hjá okkur. Með smá heppni hefðum við getað náð jafntefli eða jafnvel unnið leikinn ef við hefðum ekki fengið þetta víti á okkur.“

Kolbeinn segist hafa haft ágætt sjónarhorn á atvikið þegar Frakkarnir fengu dæmda vítaspyrnu. „Já. Ari kom við hann en það var ekki mikið. Griezmann fattaði það eftir á, þ.e.a.s eftir snertinguna og lét sig falla. Hann lék þetta bara og fékk það sem hann vildi fá. Hann hefði alveg getað sleppt því og haldið áfram. Miðað við það sem ég sá þá var þetta 50/50 atvik þar sem dómarinn gat dæmt á þetta en gat einnig sleppt þessu,“ sagði Kolbeinn í samtali við mbl.is á Laugardalsvelli. 

Kolbeinn á ferðinni gegn Frökkum í kvöld.
Kolbeinn á ferðinni gegn Frökkum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert