Rúnar Már úr leik næstu vikurnar

Rúnar Már Sigurjónsson í leiknum í kvöld.
Rúnar Már Sigurjónsson í leiknum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rúnar Már Sigurjónsson er úr leik næstu vikurnar en hann tognaði aftan í læri í síðari hálfleiknum gegn Frökkum í undankeppni EM í knattspyrnu á Laugardalsvellinum í kvöld.

„Okkur leið vel í hálfleik. Okkur fannst við vera á góðum stað og framan af seinni hálfleik líka. Það var þessa síðasta sending sem var oft að klikka hjá okkur í sókninni og við hefðum getað verið beittari. Það vantaði ekki mikið uppá og mjög svekkjandi að tapa þessum leik,“ sagði Rúnar Már við mbl.is eftir leikinn.

„Fyrst Tyrkir unnu líka í kvöld er orðið langsóttara að við náum að tryggja okkur inn á EM en við vonum að við klárum okkar og Frakkar sömuleiðis. En við þurfum að byrja á að vinna leikinn gegn Andorra á mánudaginn.“

Hvernig leit þessi vítaspyrnudómur út fyrir þér?

„Ari tók hann niður Griezmann tók tvö eða þrjú skref áður en datt í grasið. Þar sem ég stóð fannst mér boltinn vera á milli. Mér fannst dómarinn sýna þeim allt of mikla virðingu. Allt 50/50 féll með Frökkunum,“ sagði Rúnar Már, sem þurfti að hætta leik vegna meiðsla á 72. mínútu.

„Ég tognaði aftan í læri sem þýðir að ég verð ekki með á mánudaginn og verð frá keppni næstu vikurnar. Það er mjög svekkjandi því mér leið vel inni á vellinum og vildi klára leikinn og ná að jafna hann. Það er fúlt að ég og Jói lentum í sömu meiðslum en það þýðir ekkert að væla. Það kemur maður í manns stað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert