Stefnum á að komast í hreinan úrslitaleik í Tyrklandi

Hannes Þór Halldórsson.
Hannes Þór Halldórsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hannes Þór Halldórsson stóð vaktina vel í íslenska markinu í kvöld þegar Íslendingar biðu lægru hlut fyrir heimsmeisturum Frakka 1:0 í undankeppni EM á Laugardalsvellinum.

Oliver Giroud tryggði Frökkunum sigurinn með marki úr vítaspyrnu en Hannes átti engan möguleika á að verja góða spyrnu framherjans úr Chelsea.

„Okkur gekk illa að skapa okkur færi í leiknum en við héldum Frökkunum vel frá okkur alveg fram að vítaspyrnunni. Mér fannst við spila virkilega vel og eins leik og við höfum verið að spila þegar við höfum náð að vinna þessar stóru þjóðir hér heima. Því miður fengu þeir þetta víti og skoruðu úr því.

Í kjölfarið opnaðist þetta aðeins hjá okkur. Frakkarnir voru mjög sterkir til baka og strákarnir töluðu um það eftir leikinn að það hefði verið erfitt að skapa sér einhver færi á móti þeim. Við hefðum þurft smá heppni og eitthvað virkilega sérstakt til að ná skora gegn þeim en við vorum mjög nálægt því að stela stigi og jafnvel sigri,“ sagði Hannes Þór við mbl.is eftir leikinn.

Hvernig leit þessi vítaspyrnudómur út fyrir þér?

„Mér fannst hún ódýr. Það var einhver snerting en hann datt miklu seinna. En ég er ekki dómari svo ég get ekki sagt hvort þetta hafi verið réttur dómur eða ekki.“

Hannes Þór segir enga uppgjöf í íslenska liðinu þrátt fyrir ósigurinn í kvöld.

„Það er alltaf erfitt að þurfa að stóla á aðra. Staðan var í rauninni snúin fyrir þennan leik. Við þurfum að treysta á að Frakkar vinni Tyrkina og svo getum við séð um þetta sjálfir. Ég vona að Frakkarnir haldi sínu striki og vinni Tyrkina á mánudaginn og þá erum við klárir í að vinna okkar þrjá síðustu leiki. Við stefnum á að komast í hreinan úrslitaleik í Tyrklandi en fyrst er að vinna leikinn á móti Andorra,“ sagði Hannes.

Jóhann Berg og Rúnar Már verða ekki með á mánudaginn en báðir tognuðu þeir aftan í læri.

„Það er aldrei gott að missa menn í meiðsli. Við megum ekki við miklum skakkaföllum enda búnir að missa nokkra lykilmenn. En við verðum bara að bregðast við þessu og við eigum að vinna leikinn á mánudaginn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert