Einn veikur en aðrir ferskir - Kolbeinn klár í að byrja

Erik Hamrén á fréttamannafundinum í dag.
Erik Hamrén á fréttamannafundinum í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Erik Hamrén kveðst hafa verið hálfundrandi á því hve mönnum hafi liðið vel í líkamanum eftir 90 mínútna leik við heimsmeistara Frakka á föstudag og að útlitið sé því gott fyrir leikinn við Andorra annað kvöld í undankeppni EM karla í fótbolta.

Jóhann Berg Guðmundsson og Rúnar Már Sigurjónsson verða þó ekki með í leiknum eins og fram hefur komið, eftir að hafa meiðst gegn Frökkum, og Hamrén segir ekki enn ljóst hve lengi þeir verði frá keppni. Því sé ekki hægt að segja til um hvort þeir nái síðustu tveimur leikjunum í undankeppninni, gegn Tyrklandi og Moldóvu, um miðjan næsta mánuð.

Samúel Kári Friðjónsson veiktist í gær og verður ekki með á æfingu nú í hádeginu en að öðru leyti er hópurinn klár í leikinn við Andorra. Aron Elís Þrándarson hefur bæst í hópinn vegna meiðsla Jóhanns og Rúnars.

Kolbeinn Sigþórsson og Birkir Bjarnason eru tilbúnir í að mæta …
Kolbeinn Sigþórsson og Birkir Bjarnason eru tilbúnir í að mæta Andorra. mbl.is/Eggert


Kolbeini leið mjög vel degi eftir leik

Kolbeinn Sigþórsson og Birkir Bjarnason eru meðal þeirra manna í hópnum sem hafa ekki gert mikið af því síðustu mánuði að spila tvo byrjunarliðsleiki með þriggja daga millibili. Miðað við orð Hamrén gætu þeir þó báðir byrjað á morgun eftir að hafa spilað vel gegn Frökkum:

„Kolbeini leið mjög vel í gær og miðað við stöðuna núna gæti hann verið í byrjunarliðinu. Við sjáum til í dag. Flestir eru þreyttir tveimur dögum eftir leik og því verður ekki erfið æfing fyrir þá, en ég býst við að hann geti byrjað leikinn,“ sagði Hamrén, og varðandi Birki:

„Sama og með aðra. Ég var svolítið undrandi þegar ég talaði við þá sem byrjuðu leikinn. Þeim leið mjög vel en kannski eru einhverjir þreyttari í dag. Leikmenn eins og Birkir, sem hafa reynslu af því að spila í ensku 1. deildinni, eru vanir að spila mikið.“

Alfreð Finnbogason sat blaðamannafundinn á Laugardalsvelli í dag með Hamrén og má fastlega gera ráð fyrir því að hann spili gegn Andorra, eftir að hafa komið inn á sem varamaður gegn Frökkum. Þó að Svíinn vildi ekki segja það beint út var á honum að heyra að Ísland myndi tefla fram tveimur framherjum með Gylfa Þór Sigurðsson á miðjunni, líkt og í fleiri leikjum gegn lakari andstæðingum undanriðilsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert