„Sérfræðingar í að pirra“

Alfreð Finnbogason með boltann í leiknum gegn Frökkum á föstudag. …
Alfreð Finnbogason með boltann í leiknum gegn Frökkum á föstudag. Antoine Griezmann eltir hann. mbl.is/Eggert

Alfreð Finnbogason segir að leikmenn Andorra hafi sýnt það í 2:0-tapinu gegn Íslandi í mars að þeir séu sérfræðingar í að pirra andstæðinginn. Liðin mætast á Laugardalsvelli annað kvöld í mikilvægum leik í undankeppni EM í fótbolta.

Alfreð, sem kom inn á sem varamaður gegn Frökkum á föstudaginn, var í byrjunarliði Íslands í sigrinum gegn Andorra í mars.

„Það eru auðvitað öðruvísi smáatriði í undirbúningi fyrir leik gegn Andorra en gegn Frökkum. Andorra er búin að vera að meðaltali 25% með boltann og við gerum því ráð fyrir að vera 70-80% með boltann í leiknum. Þá þarf maður að undirbúa sig öðruvísi en fyrir leik gegn Frakklandi, þar sem dæmið er akkúrat öfugt. Þá reynir kannski á aðra eiginleika í okkar leik, að við séum með gott tempó í sendingum, og að við stjórnum hraðanum í leiknum,“ sagði Alfreð á blaðamannafundi í dag. Andorra vann Moldóvu á föstudag, 1:0, og var það fyrsti sigur liðsins í 57 tilraunum í undankeppni EM.

Engu breytt í sínum leikstíl

„Við megum ekki láta þá komast í hausinn á okkur. Maður sá að Moldóvar misstu aðeins hausinn og fengu rautt spjald. Þeir eru sérfræðingar í að pirra andstæðinginn, Andorra, eins og sást í útileiknum okkar við þá. Klippurnar sem við sáum í gær voru í raun þær sömu og fyrir leikinn í mars. Liðið hefur engu breytt í sínum leikstíl. Við þurfum að hafa ákveðið „cover“ til að verjast skyndisóknunum þeirra en annars breytist það ekki í fótbolta að það er alltaf erfitt að mæta tíu manna blokk, sérstaklega ef þeir eru þéttir fyrir á teignum. Frakkarnir og Tyrkirnir sáu það að það getur verið mjög erfitt að brjóta þá upp. Að sama skapi gerum við þær kröfur að við séum með þannig gæði að við klárum svona leiki. Að þegar við getum komið boltanum inn í teig þá verðum við að koma boltanum inn í teig og reyna að toga þá aðeins út úr stöðum. Þetta verður þolinmæðisverk en við höfum þá trú að við eigum að klára þetta hérna á heimavelli,“ sagði Alfreð.

Erik Hamrén landsliðsþjálfari tók í sama streng:

„Ég býst við erfiðum leik. Andorra vinnur ekki oft, vann síðasta leik samt gegn Moldóvu, en þetta er mjög erfitt lið að vinna. Það sést af útileikjum þeirra gegn Tyrklandi og Frakklandi. Þeir leggja mikið á sig sem lið, verjast mjög vel, og eru hættulegir í skyndisóknum og föstum leikatriðum,“ sagði Hamrén.

mbl.is