Siggi Raggi til Þórs og Ágúst til Þróttar?

Ágúst Þór Gylfason var látinn fara frá Breiðabliki í haust.
Ágúst Þór Gylfason var látinn fara frá Breiðabliki í haust. mbl.is/Hari

Þór Akureyri og Þróttur Reykjavík eru á meðal þeirra félaga sem eiga eftir að ganga frá ráðningu þjálfara meistaraflokks karla í fótbolta á næstunni.

Þórsarar réðu Gregg Ryder fyrir ári og gerðu samning við hann til tveggja ára en Ryder var látinn fara í haust. Þórsarar enduðu í 6. sæti 1. deildar. Samkvæmt Fótbolta.net horfa Þórsarar nú til Sigurðar Ragnars Eyjólfssonar, fyrrverandi landsliðsþjálfara kvenna, og mun hann hafa flogið norður í dag til viðræðna. 

Siggi Raggi þjálfaði síðast kvennalandslið Kína en var áður þjálfari Jiangsu Suning í Kína, aðstoðarþjálfari karlaliðs Lillestrøm í Noregi 2014-2016 og þjálfari karlaliðs ÍBV tímabilið 2014. Þar áður stýrði hann kvennalandsliði Íslands meðal annars á tvö stórmót.

Vefmiðillinn 433.is greinir svo frá því að samkvæmt heimildum miðilsins sé Ágúst Gylfason í viðræðum um að taka við liði Þróttar. Ágúst stýrði Breiðabliki til silfurverðlauna á tveimur síðustu Íslandsmótum en var látinn fara í haust og Óskar Hrafn Þorvaldsson ráðinn í hans stað. Þróttur rak þjálfarann Þórhall Siggeirsson nú í haust eftir eitt tímabil með liðið, en liðið bjargaði sér frá falli í lokaumferð 1. deildarinnar.

Sigurður Ragnar Eyjólfsson þjálfaði síðast kínverska kvennalandsliðið.
Sigurður Ragnar Eyjólfsson þjálfaði síðast kínverska kvennalandsliðið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert