Beið lengi eftir tækifærinu

Jón Guðni (3) fagnar Kolbeini Sigþórssyni eftir annað mark Íslands …
Jón Guðni (3) fagnar Kolbeini Sigþórssyni eftir annað mark Íslands í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Miðvörðurinn Jón Guðni Fjóluson var í kvöld í fyrsta skipti í byrjunarliði íslenska landsliðsins í knattspyrnu í undankeppni stórmóts þegar liðið lagði Andorra að velli 2:0 í undankeppni EM 2020. 

„Því var hvíslað að mér á æfingu í gær að ég myndi byrja inni á. Það var mjög skemmtilegt að koma inn í byrjunarliðið. Í raun frábært að fá tækifæri því ég hef beðið eftir því lengi. Það gerði þetta enn þá skemmtilegra að leikurinn skyldi vera hér heima enda langt síðan ég hef spilað á Laugardalsvellinum,“ sagði Jón Guðni þegar mbl.is ræddi við hann að leiknum loknum. 

Ísland hafði ágæt tök á leiknum í kvöld en þurfti að bíða fram á 37. mínútu eftir fyrra markinu og þá minnkaði mótspyrna Andorra. 

„Það er svolítið andlegt stríð að spila á móti þeim. Þeir reyna að tefja eins og þeir geta og kasta sér niður við hvert tækifæri. Sem er gersamlega óþolandi en maður verður að halda haus og þetta snýst um að vinna leikinn. Mér fannst við komast ágætlega frá þessu hvað þetta varðar. Menn voru stundum pirraðir yfir einhverjum ákvörðunum dómarans en mér fannst við þola þetta nokkuð vel. Við gerðum nóg í dag en ekki mikið meira en það,“ sagði Jón Guðni enn fremur.

mbl.is