Engin flugeldasýning en þrjú stig

Ísland lagði Andorra að velli 2:0 í undankeppni Evrópumóts karla í knattspyrnu á Laugardalsvellinum í kvöld. Um síðasta heimaleik Íslands var að ræða í riðlinum en liðið á eftir útileiki gegn Tyrklandi og Moldóvu. 

Kolbeinn Sigþórsson jafnaði markamet Eiðs Smára Guðjohnsen þegar hann skoraði síðara mark Íslands á 65. mínútu og sitt tuttugasta og sjötta fyrir A-landsliðið. 

Skagamaðurinn ungi Arnór Sigurðsson skoraði fyrra mark Íslands á 38. mínútu og skoraði þar sitt fyrsta fyrir A-landsliðið. 

Frakkland og Tyrkland gerðu 1:1 jafntefli í París. Eru þær þjóðir báðar með 19 stig eftir átta umferðir af tíu. Ísland er með 15 stig og Albanía 12 sem vann Moldóvu 4:0 í Moldóvu. Andorra er með 3 stig en Moldóva er án stiga.

Frakkar og Tyrkir eru því í afar góðri stöðu til að komast í lokakeppnina en enn eru þó tvær umferðir eftir af riðlakeppninni. 

Leikur Íslands og Andorra var í daufari kantinum og aðstæður voru krefjandi en mjög kalt var í Laugardalnum í kvöld. Leikurinn var rólegur fyrsta hálftímann og þótt Ísland væri sterkara liðið á vellinum þá náði liðið ekki að skapa sér mörg dauðafæri. 

Var það viss léttir þegar Arnór braut ísinn og eftir það var Andorra ekki sérlega líklegt til að ná í stig. Guðlaugur Victor senid á fjærstöngina og þar náði Kolbeinn að skalla fyrir. Arnór var réttur maður á réttum stað og skoraði með hægri fæti af stuttu færi. 

Kolbeinn innsiglaði í rauninni sigurinn með marki sínu í síðari hálfleik. Ragnar sendi inn fyrir vörn Andorra. Kolbeinn þurfti að kljást þar við aftasta varnarmann Andorra. Snéri hann snyrtilega af sér, lagði boltann fyrir vinstri fótinn og renndi boltanum í netið. 

Ísland fékk upplagt tækifæri til að skora þriðja markið þegar vítaspyrna var dæmd. Arnór Ingvi reyndi að prjóna sig í gegn og fór boltinn í hönd varnarmanns. Gylfi Þór Sigurðsson fór á vítapunktinn en Josep Gomes valdi rétt horn og varði vel. 

Gylfi var nærri því að skora í uppbótartíma þegar hann tók aukaspyrnu á vítateigslínunni nánast en boltinn small í stönginni vinstra megin. 

Þrjár breytingar voru á íslenska liðinu frá því í leiknum gegn Frökkum. Þá meiddust þeir Jóhann Berg Guðmundsson og Rúnar Már Sigurjónsson. Arnór og Alfreð Finnbogason komu inn í byrjunarliðið í þeirra stað. Að auki fór Jón Guðni Fjóluson í miðvarðastöðuna en Kári Árnason á varamannabekkinn en hann var tæpur vegna þeirra meiðsla sem hann varð fyrir í Albaníu í september. 

Ísland 2:0 Andorra opna loka
90. mín. Ísland fær hornspyrnu Frá vinstri
mbl.is