Hundfúll þrátt fyrir sigur

Erik Hamrén var afar vonsvikinn á blaðamannafundi íslenska liðsins í …
Erik Hamrén var afar vonsvikinn á blaðamannafundi íslenska liðsins í kvöld, þrátt fyrir þægilegan 2:0-sigur gegn Andorra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Erik Hamrén, landsliðsþjálfari Íslands í knattspyrnu, var hundfúll eftir 2:0-sigur Íslands gegn Andorra í undankeppni EM á Laugardalsvelli í dag. Ísland þurfti á sigri að halda en á Stade de France í Frakklandi gerðu Frakkar og Tyrkir 1:1-jafntefli sem voru slæm úrslit fyrir íslenska liðið.

Tyrkir og Frakkar eru nú með fjögurra stiga forskot á Ísland í H-riðili undankeppninnar þegar tveir leikir eru eftir af undankeppninni og er íslenska liðið því ekki með örlögin í sínum höndum lengur.

„Það var fátt sem kom mér á óvart í þeirra leik,“ sagði Hamrén á blaðamannafundi íslenska liðsins á Laugardalsvelli eftir leik. „Við vorum ekki nægilega ákveðnir framan af og þeir voru sterkari en við í návígjunum.Við vorum sterkari aðilinn framan af og áttum sigurinn skilinn. Mér leið ekki vel í stöðunni 1:0 en mér fór að líða mun betur eftir að við skoruðum annað markið. Þú þarft að vinna einvígin inni á vellinum til þess að vinna knattspyrnuleiki og þetta fór að detta betur fyrir okkur eftir því sem leið á leikinn.“

Kolbeinn Sigþórsson fagnar marki sínu í kvöld ásamt Birkir Bjarnasyni …
Kolbeinn Sigþórsson fagnar marki sínu í kvöld ásamt Birkir Bjarnasyni og Arnóri Sigurðssyni. mbl.is/Hari

Vildi fara til Tyrklands í úrslitaleik

Eins og áður sagði var Hamrén afar svekktur og vonsvikinn á fundinum í kvöld því fyrir leik kvöldsins hefði sigur í Tyrklandi dugað til þess að fara á EM, að því gefnu að Frakkar hefðu lagt Tyrki að velli í París.

„Við þurftum á þremur stigum að halda og við náðum í þau, þótt við höfum oft spilað betur. Það er ákveðið styrkleikamerki en samt sem áður líður okkur ekki eins og við höfum unnið leikinn vegna úrslitanna í Frakklandi. Við vitum að þetta verður erfitt núna en við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að klára okkar leiki og vonandi dugar það.“

Sú ótrúlega staða gæti komið upp að Íslandi endi undankeppnina með 21 stig af 30 mögulegum en komist samt ekki á EM.

„Við sjáum hvernig málin þróast eftir undankeppnina. Tyrkir hafa haft heppnina með sér í liði hingað til og þú þarft líka á smá heppni að halda til þess að ná markmiðum þínum. Það getur allt gerst í fótbolta en fari svo að við endum með 21 stig væri það mjög súrt að komast ekki á EM með þann stigafjölda. Að sama skapi væri ég ánægðari í kvöld ef við værum á leið til Tyrklands í alvöruúrslitaleik,“ sagði Erik Hamrén.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert