Kolbeinn jafnaði markametið

Kolbeinn Sigþórsson hefur nú skorað 26 mörk í 54 landsleikjum.
Kolbeinn Sigþórsson hefur nú skorað 26 mörk í 54 landsleikjum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kolbeinn Sigþórsson, framherji íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, jafnaði í kvöld markamet Eiðs Smára Guðjohnsen fyrir landsliðið þegar hann skoraði annað mark liðsins gegn Andorra í undankeppni EM á Laugardalsvelli.

Þetta var mark númer 26 hjá Kolbeini fyrir íslenska karlalandsliðið í 54 landsleikjum. Eiður Smári skoraði 26 mörk í 88 landsleikjum á árunum 1996 til ársins 2006. Kolbeinn spilaði sinn fyrsta landsleik í mars 2010 í vináttuleik gegn Færeyjum.

Staðan á Laugardalsvelli er 2:0, Íslandi í vil, en ásamt því að skora annað mark Íslands lagði Kolbeinn upp fyrsta mark leiksins fyrir Arnór Sigurðsson. Ísland er í þriðja sæti H-riðils undankeppninnar en með sigri í kvöld fer íslenska liðið í 15 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert