„Manni líður skringilega“

Arnór Ingvi Traustason reynir skot að marki Andorra í kvöld.
Arnór Ingvi Traustason reynir skot að marki Andorra í kvöld. mbl.is//Hari

Njarðvíkingurinn Arnór Ingvi Traustason var sprækur á vinstri kantinum í kvöld þegar Ísland vann Andorra 2:0 í síðasta heimaleik Íslands í undankeppni EM 2020. 

„Þetta var erfiður leikur að spila. Þetta snerist um að halda haus vegna þess að Andorra er leiðinlegt lið að spila gegn. Við vildum skora í fyrri hálfleik og náðum því. Eftir það var þetta ósköp þægilegt þótt maður hafi verið pirraður hér og þar. Við hefðum alveg getað spilað betur en maður vildi bara komast í gegnum þennan leik,“ sagði Arnór sem vann vítaspyrnu eftir ágæta rispu á 72. mínútu. 

„Ég er búinn að sjá atvikið í endursýningu og boltinn skoppaði einhvern veginn í höndina á leikmanni Andorra sem hélt hendinni úti. Ég held því að þetta hafi verið réttur dómur.“

Arnór Ingvi hefur verið viðloðandi landsliðið í nokkur ár og skoraði auðvitað sögufrægt sigurmark gegn Austurríki sem kom Íslandi í 16-liða úrslit á EM í Frakklandi 2016. Hann hefur hins vegar yfirleitt verið á varamannabekknum því Jóhann Berg Guðmundsson og Birkir Bjarnason hafa leikið vel á köntunum fyrir landsliðið í gegnum árin. Arnór fékk nú tækifæri til að byrja inni á bæði gegn Frakklandi og Andorra og viðurkenndi fúslega að það hafi verið kærkomið að fá tækifæri til þess.

„Já algerlega. Í rauninni var geggjað að fá að byrja inni á í þessum tveimur leikjum. Maður leggur mikið á sig þarna úti (hjá Malmö í Svíþjóð) og vonast til að fá einhverjar mínútur með landsliðinu sem ég fékk núna. Þótt það hafi verið geggjað þá líður manni svolítið núna eins og maður hafi tapað báðum leikjunum þótt við höfum fengið þrjú stig í kvöld. Við þurfum að klára dæmið í síðustu tveimur leikjunum og treysta á að Andorra stríði Tyrklandi,“ sagði Arnór en varðandi líðanina í kvöld þá er hann að vísa til þess að Tyrkir náðu nokkuð óvænt jafntefli gegn Frökkum í París. 

„Það eru blendnar tilfinningar sem fylgja þessu vegna þess að við unnum okkar leik. Manni líður eitthvað skringilega. Við þurfum enn þá að vinna okkar leiki til að eiga möguleika. Þeir væru meiri ef Frakkar hefðu unnið en það er ekkert auðvelt fyrir Tyrkland að fara til Andorra og spila gegn þeim á gervigrasinu.“

Arnór Ingvi á ferðinni gegn Andorra.
Arnór Ingvi á ferðinni gegn Andorra. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is