Sætt að skora fyrir framan þjóðina

Arnór Sigurðsson með boltann í leiknum í kvöld.
Arnór Sigurðsson með boltann í leiknum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Arnór Sigurðsson skoraði sitt fyrsta A-landsliðsmark þegar Ísland vann Andorra 2:0 í undankeppni EM 2020 á Laugardalsvelli í kvöld. 

Arnór fékk tækifæri í byrjunarliðinu og lék á hægri kantinum. Hann skoraði fyrra mark Íslands á 38. mínútu. „Ég fékk að vita í gær að ég myndi byrja. Við fengum að vita hvernig byrjunarliðið yrði í gær. Ég fékk því tíma til að búa mig undir það bæði líkamlega og andlega,“ sagði Arnór og getur í kvöld hakað við tvennt á markmiðalistanum en hann hafði ekki áður verið í byrjunarliði A-landsliðsins í mótsleik. 

„Það var frábær tilfinning að skora fyrir A-landsliðið. Mér fannst sérstaklega sætt að ná því hérna heima fyrir framan þjóðina. Nú er hægt að haka við þetta markmið.“

Arnór var nokkuð sáttur við leik íslenska liðsins. „Við náðum í þrjú stig sem var markmiðið. Við eigum enn tvo leiki eftir og þurfum að vinna okkar leiki en þurfum einnig að treysta á aðra til að komast áfram. Það var töluvert rok og eftir því sem leið á bætti töluvert í vindinn. Við vissum að þetta yrði erfiður leikur þar sem þeir (leikmenn Andorra) eru hundleiðinlegir, eru vælandi og henda sér mikið niður. Við vissum að við þyrftum að halda einbeitingu en ekki láta þá komast inn í hausinn á okkur. Við gerðum það ágætlega. Fyrir mér var aldrei spurning um úrslitin eftir að við skoruðum fyrsta markið,“ sagði Skagamaðurinn Arnór Sigurðsson í samtali við mbl.is á Laugardalsvelli. 

Arnór kemur Íslandi yfir í kvöld.
Arnór kemur Íslandi yfir í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is