„Gríðarlega sárt að fá tíðindin frá París“

Gylfi Þór Sigurðsson á ferðinni í kvöld.
Gylfi Þór Sigurðsson á ferðinni í kvöld. mbl.is/Hari

Gylfi Þór Sigurðsson bar fyrirliðabandið gegn Andorra í kvöld í fjarveru Arons Einars Gunnarssonar eins og gegn Frakklandi á föstudaginn. Gylfi sagði það hafa verið afar svekkjandi að heyra af úrslitunum í París sem skiljanlegt er. 

Þar gerðu Frakkar og Tyrkir jafntefli sem gerir möguleika Íslands á að komast upp úr riðlinum langsótta þegar tvær umferðir eru eftir af riðlakeppninni. 

„Þegar við vorum að klappa fyrir áhorfendum strax eftir leikinn þá fengum við þau tíðindi að jafntefli hafi orðið niðurstaðan í Frakklandi. Það var gríðarlega svekkjandi. Það var alltaf markmiðið að vinna þennan leik og við hefðum alltaf gert það. En maður var að vonast eftir því að Frakkarnir myndu gera sitt og klára dæmið á heimavelli. Það var auðvitað gríðarlega sárt að fá þessi tíðindi,“ sagði Gylfi þegar mbl.is ræddi við hann á Laugardalsvelli. 

Það getur verið þolinmæðisverk að brjóta niður vörn Andorra en Gylfi sagði íslensku landsliðsmennina hafa verið sjálfum sér verstir í fyrri hálfleik. 

„Þessi leikur spilaðist eiginlega nákvæmlega eins og við bjuggumst við. Það tók auðvitað tíma að skora en ég held að við höfum verið með góð tök á leiknum. Við vorum kannski sjálfum okkur verstir þegar við náðum að komast í stöður til að gefa fyrir markið. Vorum að senda fyrirgjafirnar inn að markinu eða aftur fyrir markið. Þá gerðum við þeim þetta auðvelt fyrir en það var mjög mikilvægt að skora í fyrri hálfleik,“ sagði Gylfi sem virkaði haltur þegar hann gekk til blaðamanns en vonandi er það ekki alvarlegt.

 „Ég fékk eitthvað í kálfann í fyrri hálfleik. Það virðist eiginlega vera að versna.“

Gomes markvörður Andorra ver vítaspyrnuna frá Gylfa á 73. mínútu.
Gomes markvörður Andorra ver vítaspyrnuna frá Gylfa á 73. mínútu. mbl.is/Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert