Ágúst tekur við nýliðunum á Nesinu

Ágúst Þór Gylfason og Guðmundur Steinarsson við undirskrift samningsins í …
Ágúst Þór Gylfason og Guðmundur Steinarsson við undirskrift samningsins í dag. Ljósmynd/Kris

Ágúst Þór Gylfason hefur verið ráðinn þjálfari karlaliðs Gróttu í knattspyrnu en frá þessu var skýrt á fréttamannafundi sem var að hefjast í herbúðum félagsins við Vivaldi-völlinn á Seltjarnarnesi. Samingurinn er til þriggja ára.

Grótta sló hressilega í gegn á nýliðnu keppnistímabili þar sem liðið var nýliði í 1. deildinni en stóð uppi sem sigurvegari í henni og leikur í fyrsta skipti í úrvalsdeild á árinu 2020. Óskar Hrafn Þorvaldsson var þjálfari liðsins undanfarin tvö ár en var ráðinn til Breiðabliks á dögunum.

Ágúst hefur hinsvegar þjálfað Breiðablik tvö undanfarin tímabil en Kópavogsliðið hafnaði í bæði skiptin í öðru sæti deildarinnar, ásamt því að tapa úrslitaleik bikarkeppninnar 2018. Áður þjálfaði Ágúst lið Fjölnis í sex ár eftir að hafa áður verið þar aðstoðarþjálfari.

Guðmundur Steinarsson verður aðstoðarmaður Ágústs en þeir störfuðu einnig saman hjá Breiðabliki og Fjölni.

Ágúst Þór Gylfason er nýr þjálfari Gróttu.
Ágúst Þór Gylfason er nýr þjálfari Gróttu. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert