Hef ekki verið inni í þessum margumtalaða þjálfarakapli

Atli Sveinn Þórarinsson nýráðinn þjálfari Fylkismanna.
Atli Sveinn Þórarinsson nýráðinn þjálfari Fylkismanna. mbl.is/Guðmundur Hilmarsson

„Ég get trúað því að það hafi komið mörgum á óvart þegar mitt nafn kom inn í umræðuna. Ég hef ekki verið inni í þessum margumtalaða þjálfarakapli hingað til,“ sagði Atli Sveinn Þórarinsson við mbl.is eftir að hafa skrifað undir samning við Fylki þar sem hann verður þjálfari karlaliðs félagsins ásamt Ólafi Stígssyni.

Með þeim Atla Sveini og Ólafi verður Ólafur Ingi Skúlason til trausts og halds en hann verður spilandi aðstoðarþjálfari liðsins.

Kom þér á óvart þegar þú fékkst símtalið frá Fylki?

„Já að sumu leyti kom það á óvart en það var mikill heiður. Mér fannst ég ekki geta sleppt þessu tækifæri og er bara gríðarlega spenntur að takast á við verkefnið. Ég hef verið í þjálfun undanfarin ár og síðast yfirþjálfari hjá Stjörnunni þannig að maður hefur lifað og hrærst í fótboltanum. Vissulega er þetta fyrsta stóra meistaraflokksstarfið sem ég tek að mér en ég held ég og Ólarnir tveir myndum gott teymi saman. Þeir þekkja allt út og inn hjá félaginu og eru goðsagnir. Mér fannst það gott að ég komi þá utanfrá og get þá séð hlutina með aðeins öðruvísi augum en þeir,“ sagði Atli Sveinn.

Fylkismenn höfnuðu í 8. sæti í Pepsi Max-deildinni á síðustu leiktíð en Fylkismenn skorti stöðugleika og var það lið sem fékk á sig næst flestu mörkin.

„Fyrir mér á þessum tímapunkti er aðalmálið að kynnast leikmönnunum. Ég á eftir að sjá hvaða leikmenn verða örugglega áfram og þegar það er allt orðið klárt þá held ég að við getum farið að setja okkur markmið. Við eigum eftir að skoða leikmannamálin og sjá til með styrkingu á hópnum. Við hefjum undirbúningstímabilið í nóvember og þá er stefnan að þeir leikmenn sem eru til staðar fái að kynnast okkar nýju áherslum. Þetta er stórt en gríðarlega spennandi verkefni. Mörgum spurningum er ósvarað enda erum við bara á fyrstu metrunum,“ sagði Atli Sveinn.

mbl.is