Hló að eina veikleika PSG

Þorsteinn Halldórsson, þjálfari Breiðabliks, er spenntur fyrir morgundeginun.
Þorsteinn Halldórsson, þjálfari Breiðabliks, er spenntur fyrir morgundeginun. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Við erum aðeins að renna blint í sjóinn varðandi styrkleikann á þessu liði,“ sagði Þorsteinn Halldórsson, þjálfari knattspyrnuliðs Breiðabliks, í samtali við mbl.is á blaðamannfundi liðsins á Kópavogsvelli í dag.

Breiðablik tekur á móti franska stórliðinu PSG í fyrri leik liðanna í sextán liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu á Kópavogsvelli á morgun. PSG er eitt sterkasta kvennalið heims en liðið er sem stendur í öðru sæti frönsku 1. deildarinnar með 15 stig, jafn mörg stig og Evrópumeistarar Lyon.

„Við sáum íslenska landsliðið lenda í miklum vandræðum gegn landsliði Frakka og PSG á nokkra leikmenn í franska landsliðinu. Við gerum okkur grein fyrir því að þetta er mjög sterkt lið og það má ekki að gleymast að PSG er með frábæran leikmannahóp sem hefur á að skipa gríðalega góðum leikmönnum, bæði erlendum og innlendum. Það verður hins vegar afar gaman að fá tækifæri til þess að kljást við þetta lið.“

Danska stórstjarnan Nadia Nadim er einn af lykilmönnum PSG.
Danska stórstjarnan Nadia Nadim er einn af lykilmönnum PSG. AFP

Munu ekki liggja í skotgröfunum

Þjálfarinn viðurkennir að það eru ekki margar veikleikar í franska stórliðinu.

„Við fengum ansi áhugaverða leikgreiningu frá instat og þar kom fram að þeirra helstu veikleikar væru í innköstum. Ég hló þegar að ég sá það því við erum ekki góð í þeim þannig að ég veit ekki alveg hvernig við eigum að nýta okkur það. Við höfum reynt að útfæra einhvern sóknarleik sem gæti virkað á móti þeim sem mun þá byggast á skyndisóknum. Það er allt hægt í þessu og við erum ekki að fara liggja í skotgröfunum, allan tímann, Eins vonumst við eftir því að þær mæti ekki alveg rétt stemdar í leikinn og verði kannski með einhvern franskan hroka.“

Blikum hefur ekki gengið neitt sérstaklega vel í leikjum sínum eftir landsleikjahlé, undanfarin ár, en Þorsteinn hefur ekki áhyggjur af því á morgun.

„Ég hef engar áhyggjur af því að leikmenn liðsins verði í vandræðum með að gíra sig upp í leikinn og þetta snýst kannski meira um það núna að stilla spennustigið rétt,“ sagði Þorsteinn í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert