„Erfitt frá fyrstu mínútu“

Ásta verst hér Ashley Larwrence í leiknum í kvöld.
Ásta verst hér Ashley Larwrence í leiknum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Nokkuð létt var yfir Ástu Eir Árnadóttur, fyrirliða Breiðabliks, eftir leikinn gegn PSG í Smáranum í kvöld. Breiðablik átti nánast aldrei möguleika í leiknum og þarf einfaldlega að sætta sig við að tapa fyrir betra liði sem er í fremstu röð í Evrópu.

„Þetta var erfitt frá fyrstu mínútu eins og við mátti búast. Þetta er náttúrlega drullugott lið og þetta var brekka. Sérstaklega að lenda 0:3 undir fyrir hálfleik. En mér fannst við gera töluvert betur í síðari hálfleik. Þá vorum við mjög þéttar og héldum þeim niðri þar til á síðustu mínútu en það var ógeðslega pirrandi að fá á sig mark undir lokin,“ sagði Ásta þegar mbl.is spjallaði við hana en fjórða og síðasta mark PSG kom eftir hornspyrnu í uppbótartíma. Annað mark PSG kom einnig eftir hornspyrnu og blaðamaður færir í tal þá staðreynd og spyr hvort slíkt sé ekki óþarfi? 

„Jú ég er sammála og það var mjög pirrandi. Í fyrra markinu sem þær skoruðu eftir horn þá urðum við undir í dekkningu og hún (Formiga) var laus og fékk frían skalla. Sem á ekki að gerast. Í síðara skiptið gerist það sama þegar ég missi hana (Paulinu Dudek) frá mér en einnig klaufalegt að við skyldum ekki ná að koma boltanum í burtu. Ég er sammála því að það er dýrt að fá á sig tvö mörk eftir hornspyrnur.“

Ásta segir leik eða leikskipulag PSG ekki hafa komið sér á óvart. „Nei í sjálfu sér ekki. Við horfðum á búta úr þeirra leikjum og sáum að þær spila ógeðslega vel. Þær eru snöggar og bakverðirnir fara langt fram. Þær sækja því á mörgum mönnum og gerðu í allt kvöld. Í rauninni kom ekkert á óvart nema kannski það hversu ógeðslega góðar þær eru í raun og veru,“ sagði Ásta og brosti. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert