Ída Marín til liðs við Val

Ída Marín Hermannsdóttir í leik með Fylki gegn Selfossi í …
Ída Marín Hermannsdóttir í leik með Fylki gegn Selfossi í sumar. mbl.is/Hari

Knatt­spyrnu­kon­an Ída Marín Her­manns­dótt­ir er gengin í raðir Íslandsmeistara Vals frá Fylki og hefur gert tveggja ára samning en samningur hennar við Fylki rann út í dag. Þetta kemur fram á Facebook-síðu Vals.

Ída Marín er 17 ára gömul og lék sinn fyrsta meistaraflokksleik með Fylki árið 2016. Hún hefur spilað 48 leiki með Árbæjarliðinu og hefur í þeim skorað 11 mörk.

Hún er einn af lykilmönnum U19 ára landsliðs Íslands sem tryggði sér sæti í milliriðli EM á dögunum, Ída á að baki 22 leiki fyrir yngri landslið íslands.

„Það er fagnaðarefni að fá Ídu Marín til liðs við Val. Ída hefur sýnt að hún er frábær leikmaður og við hlökkum mikið til að vinna með henni á næstu árum,“ segir Pétur Pétursson, þjálfari Vals, á Facebook-síðu Vals.

„Ég vil byrja á því að þakka uppeldisfélagi mínu Fylki fyrir frábæran tíma, ég vil sérstaklega þakka þjálfurum liðsins fyrir að gefa mér stórt hlutverk og tækifæri til þess að þroskast sem leikmaður. Ég er ótrúlega ánægð að fá tækifæri til þess að ganga til liðs við Íslandsmeistaranna í Val.

Fram undan eru spennandi tímar og nýjar áskoranir. Ég tel það vera rétt skref fyrir mig á þessum tímapunkti að skipta um umhverfi. Í Val mun ég vinna með frábæru þjálfarateymi og samkeppnin um sæti í liðinu verður frábær áskorun, sem ég hlakka til að kljást við. Ég get ekki beðið eftir að byrja og hlakka til að kynnast góðu fólki á Hlíðarenda,“ segir Ída Marín.

mbl.is