„Svarið er að æfa meira“

Agla María Albertsdóttir í leiknum í kvöld.
Agla María Albertsdóttir í leiknum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Landsliðskonan, Agla María Albertsdóttir, fékk ekki úr miklu að moða á kantinum þegar Breiðablik tapaði 0:4 fyrir PSG í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu í kvöld. Agla segir einfaldlega að íslensku liðin verði að leggja harðar að sér til að eiga möguleika á því að nálgast atvinnumannalið eins og PSG að getu. 

„Þessi leikur sýnir að þær eru svolítið á undan okkur. Það er bara þannig. Þær eru rosalega snöggar og við náum aldrei að pressa þær saman. Þá verður þetta svo erfitt. Ég var eiginlega bara í hlaupunum frá miðverði niður á bakvörð allan leikinn og þetta voru erfið hlaup,“ sagði Agla þegar mbl.is ræddi við hana á Kópavogsvellinum. 

Hvað geta íslenskir leikmenn lært af leikjum eins og þessum gegn liði í hæsta gæðaflokki? „Þær eru náttúrlega mjög teknískar en ég held að svarið sé einfaldlega að æfa meira. Ég held að það sé það eina sem við getum gert til að komast í þennan gæðaflokk. Við þurfum að æfa meira og auka gæðin hér heima. Þetta eru topp leikmenn í hverri einustu stöðu. Bestu frönsku stelpurnar og landsliðskonur frá öðrum löndum. Það er ekki skrítið að þær séu með gott lið.“

Breiðablik átti erfitt með að halda boltanum og leikmenn liðsins reyndu það heldur ekki mikið og sendu boltann frekar fram kantana. Þar spilaði reyndar spennustigið inn í í fyrri hálfleik en hefði eftir á að hyggja verið hægt að halda boltanum oftar? 

„Já kárlega. Við flýttum okkur allt of mikið þegar við fengum boltann í stað þess að spila honum niðri eins og við ætluðum að gera. Ef við hefðum haldið boltanum þá hefðum við getað hvílt okkur aðeins. En þess í stað spörkuðum við boltanum beint fram og þá varð þetta afar erfitt. Það hefði verið betra fyrir okkur ef við hefðum getað haldið aðeins betur í boltann,“ sagði Agla María Albertsdóttir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert