Ætla að taka mér frí en er ekki hættur

Ólafur Jóhannesson.
Ólafur Jóhannesson. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Ólafur Jóhannesson sem lét af störfum hjá Val eftir tímabilið hefur ákveðið að taka sér frí frá þjálfun á næsta tímabili.

„Ég ætla ekkert að þjálfa á næsta ári en ég er ekki hættur,“ sagði Ólafur í samtali við mbl.is í dag.

Ólafur stýrði Valsliðinu í fimm ár og undir hans stjórn varð Valur tvívegis Íslandsmeistari og bikarmeistari tvisvar sinnum en Valur ákvað að framlengja ekki samninginn við hann eftir tímabilið og réð Heimi Guðjónsson í hans stað.

„Ég er búinn að fá fullt af fyrirspurnum frá liðum hér heima og frá Færeyjum en ég ætla að taka mér frí á næsta ári. Ég held að það sé bara ágætt að hvíla sig aðeins frá þessu en ég er ekki hættur. Það er öðruvísi með mig heldur en marga aðra þjálfara. Ég fer bara að smíða eins og ég er vanur að gera. Það er ekkert sem breytist í mínu lífi nema ég fer ekki að þjálfa á hverjum degi. Ég hef ekkert hent hamrinum en ég hef látið hann eiga sig yfir blásumarið,“ sagði Ólafur við mbl.is en hann er lærður smiður.

Ólaf­ur, sem er 62 ára gam­all, er einn reynd­asti og sig­ur­sæl­asti þjálf­ari lands­ins en hann hef­ur verið í þjálf­un meira og minna í tæp 40 ár. Hann hóf þjálf­ara­fer­il sinn hjá Ein­herja á Vopnafirði árið 1981 og hef­ur síðan þá þjálfað Skalla­grím, FH, Þrótt Reykja­vík, Sel­foss, ÍR og Val og þá stýrði hann ís­lenska A-landsliðinu 2007—11. FH varð þris­var sinn­um Íslands­meist­ari und­ir stjórn Ólafs og bikar­meist­ari einu sinni.

mbl.is