Eltingarleikur í 90 mínútur á Kópavogsvelli

Agla María Albertsdóttir sækir að leikmanni PSG í gærkvöld.
Agla María Albertsdóttir sækir að leikmanni PSG í gærkvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Breiðablik lenti í rúmlega 90 mínútna eltingarleik við firnasterkt lið PSG frá Frakklandi í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu kvenna í knattspyrnu á Kópavogsvellinum í gærkvöldi.

PSG vann sanngjarnan 4:0 sigur og hafði liðið fullkomna stjórn á leiknum frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu. PSG er því komið með annan fótinn hið minnsta í 8-liða úrslitin en liðin eiga eftir að mætast á ný í París.

Ljóst var strax í upphafi leiks að leikmenn franska liðsins tóku ekki verkefninu gegn íslensku bikarmeisturunum af neinni léttúð. Engin byrjendamistök gerð eins og að vanmeta andstæðinginn heldur allt sett í botn. Spennustigið var hátt fyrir leikmenn Blika sem margir eru í yngri kantinum.

Stressið hafði áhrif á leikmenn Blika þótt það hafi ekki ráðið úrslitum.

Leikurinn varð aldrei óþægilegur fyrir PSG því liðið náði að skora á 10. mínútu og koma sér í þægilega stöðu. Var því fylgt eftir með tveimur mörkum til viðbótar á fyrsta hálftímanum. Var þá staðan orðin 3:0 og hélst hún þannig þar til í uppbótartímanum þegar fjórða markið kom eftir hornspyrnu.

Tvö marka PSG komu eftir hornspyrnur. Ef maður á að gagnrýna Blikana fyrir eitthvað þá mætti einna helst nefna þá staðreynd. Breiðablik er það gott lið að það er óþarfi að fá á sig tvö mörk eftir föst leikatriði þótt andstæðingurinn sé sterkur. Nógu erfitt er að verjast heimsklassa leikmönnum PSG í opnu spili úti á vellinum án þess að mörk eftir hornspyrnur bætist ofan á.

Greinina í heild sinni má sjá á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert