Blikar halda áfram að styrkja sig

Vigdís Edda Friðriksdóttir í leik með Tindastóli gegn Þrótti síðasta …
Vigdís Edda Friðriksdóttir í leik með Tindastóli gegn Þrótti síðasta sumar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vigdís Edda Friðriksdóttir er að ganga til liðs við knattspyrnulið Breiðabliks samkvæmt heimildum mbl.is. Vigdís Edda er 20 ára gömul en hún kemur til Blika frá Tindastóli. Hún lék 17 leiki í 1. deildinni síðasta sumar þar sem hún skoraði fimm mörk.

Vigdís Edda er uppalin á Sauðárkróki en hún á að baki 79 leiki í deild og bikar með Tindastóli þar sem hún hefur skorað 25 mörk. Vigdís Edda var lykilmaður í liði Tindastóls síðasta sumar þar sem liðið endaði í þriðja sæti 1. deildarinnar með 37 stig og rétt missti af sæti í efstu deild.

Blikar hafa nú þegar samið við Hafrúnu Rakel Halldórsdóttur sem kom til félagsins frá Aftureldingu. Þá hafa Blikar einnig rætt við bæði Sigríði Láru Garðarsdóttur, fyrrverandi leikmann ÍBV, sem og Sveindísi Jane Jónsdóttur, leikmann Keflavíkur samkvæmt heimildum mbl.is.

Agla María Albertsdóttir, kantmaður Breiðabliks, er með nokkur tilboð frá erlendum liðum samkvæmt heimildum mbl.is og gæti því yfirgefið félagið þegar þátttöku Blika í Meistaradeild Evrópu lýkur. Blikar enduðu í öðru sæti úrvalsdeildarinnar síðasta sumar með 48 stig, tveimur stigum minna en Íslandsmeistarar Vals.

mbl.is