Gunnar ráðinn þjálfari Þróttar

Gunnar Guðmundsson þjálfar Þrótt næsta sumar.
Gunnar Guðmundsson þjálfar Þrótt næsta sumar. Ljósmynd/Þróttur Reykjavík

Gunnar Guðmundsson hefur verið ráðinn þjálfari karlaliðs Þróttar Reykjavíkur í fótbolta. Hann tekur við af Þórhalli Siggeirssyni sem var rekinn eftir síðasta tímabil, þar sem Þróttarar rétt sluppu við fall. 

Gunnar var aðstoðarþjálfari Grindavíkur síðasta sumar. Gunnar hefur þjálfað meistaraflokka hjá HK, Selfossi og Gróttu og hefur hann einnig þjálfað U17 ára landslið karla. 

Tilkynning frá Þrótti:

Gunnar Guðmundsson hefur verið ráðinn þjálfari meistaraflokksliðs karla hjá Þrótti og gildir samningurinn út keppnistímabilið 2022.

Gunnar hefur áður þjálfað lið HK sem hann fór með í efstu deild, Landsbankadeildina, árið 2006 og einnig lið Selfoss og Gróttu í 1.deildinni en hann á að baki yfir 170 leiki í tveimur efstu deildum Íslandsmótsins sem aðalþjálfari. Hann var á síðasta keppnistímabili aðstoðarþjálfari liðs Grindavíkur í Pepsi Max deildinni.

Gunnar hefur jafnframt verið landsliðsþjálfari U16 ára og U17 ára liðanna og stýrði hann m.a. U17 ára liðinu í úrslitakeppni EM árið 2012 en í því liði var einmitt einn núverandi leikmaður Þróttar, Daði Bergsson. Aðilar eru sammála þeirri stefnu knattspyrnudeildar Þróttar að byggja lið til framtíðar á ungum uppöldum leikmönnum félagsins í bland við leikmenn sem miðla munu reynslu í þeim verkefnum sem framundan eru.

Þróttur bíður Gunnar velkominn í Laugardalinn og lítum við björtum augum til farsæls samstarfs á komandi tímabilum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert