Vigdís Edda gengur til liðs við Breiðablik

Vigdís Edda Friðriksdóttir.
Vigdís Edda Friðriksdóttir. Ljósmynd/Breiðablik

Vigdís Edda Friðriksdóttir hefur skrifað undir tveggja ára samning við knattspyrnudeild Breiðabliks og mun því leika með liðinu á Íslandsmótinu næsta sumar.

Vigdís Edda er fædd árið 1999 og leikur sem miðjumaður en hún er uppalin á Sauðárkróki og hefur leikið alls 79 leiki fyrir meistaraflokk Tindastóls og skoraði í þeim 25 mörk. Hún þótti skara fram úr í sumar þar sem hún skoraði níu mörk í 20 leikjum fyrir Tindastól sem endaði í 3. sæti Inkasso-deildarinnar.

Breiðablik hafnaði í öðru sæti Pepsi Max-deildarinnar í sumar, tveimur stigum frá meistaraliði Vals, þrátt fyrir að hafa ekki tapað deildarleik.

mbl.is