Þórður Gunnar í Árbæinn - Helgi Valur framlengdi

Þórður Gunnar Hafþórsson skrifaði undir þriggja ára samning við Árbæinga.
Þórður Gunnar Hafþórsson skrifaði undir þriggja ára samning við Árbæinga. Ljósmynd/Fylkir

Þórður Gunnar Hafþórsson er genginn til liðs við Fylki og mun hann leika með liðinu í úrvalsdeild karla í knattspyrnu næsta sumar. Þetta kemur fram á Facebook-síðu félagsins en Þórður Gunnar skrifaði undir þriggja ára samning við félagið. 

Þórður kemur til félagsins frá Vestra en hann er fæddur árið 2001. Hann á að baki 66 meistaraflokksleiki með Vestra þar sem hann hefur skorað 11 mörk. Þá á hann að baki níu landsleiki fyrir yngri landslið Íslands þar sem hann hefur skorað eitt mark.

Þá framlengdi Helgi Valur Daníelsson samning sinn við félagið til eins árs. Helgi spilaði 20 leiki með liðinu í deild og bikar síðasta sumar þar sem hann skoraði fjögur mörk. Hann var einn besti leikmaður liðsins á nýafstöðnu tímabili en hann er fæddur árið 1981.

Helgi Valur framlengdi samning sinn til eins árs.
Helgi Valur framlengdi samning sinn til eins árs. Ljósmynd/Fylkir
mbl.is