Halldór Orri aftur til Stjörnunnar

Halldór Orri Björnsson í leik með Stjörnunni.
Halldór Orri Björnsson í leik með Stjörnunni. mbl.is/Golli

Knattspyrnumaðurinn Halldór Orri Björnsson er genginn til liðs við Stjörnuna á nýjan leik og hefur skrifað undir þriggja ára samning við Garðabæjarliðið. Frá þessu er greint á Twitter-síðu Stjörnunnar. 

Halldór yfirgaf FH í vikunni eftir að hafa spilað með Hafnarfjarðarliðinu undanfarin þrjú ár en hann er uppalinn Stjörnumaður og lék með liðinu í mörg ár áður en hann reyndi fyrir sér í atvinnumennskunni í eitt ár með sænska liðinu Falkenberg árið 2014.

Halldór Orri hefur spilað 188 leiki í efstu deild og hefur í þeim skorað 59 mörk. Hann er markahæsti leikmaðurinn í sögu Stjörnunnar í deildinni með 56 mörk og sá þriðji leikjahæsti með 146 leiki. Hann á tvo A-landsleiki að baki.

mbl.is