KR heldur áfram að styrkja sig

Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir skrifaði undir tveggja ára samning við KR …
Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir skrifaði undir tveggja ára samning við KR í dag. mbl.is/Arnþór Birkisson

Knattspyrnukonan Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir er gengin til liðs við KR en þetta staðfesti félagið á heimasíðu sinni í dag. Þórdís Hrönn skrifar undir tveggja ára samning við Vesturbæjarliðið sem tryggði sér einnig þjónustu Önu Cate fyrr í dag.

Þórdís Hrönn lék síðast með Þór/KA í úrvalsdeildinni síðasta sumar þar sem hún skoraði tvö mörk í þrettán leikjum. Hún gekk til liðs við Þór/KA á láni frá sænska úrvalsdeildarfélaginu Kristianstad en samningur hennar við sænska félagið rann út á dögunum.

Þórdís Hrönn á að baki 102 leiki í efstu deild þar sem hún hefur skorað 23 mörk. Þá á hún að baki 2 A-landsleiki fyrir Ísland en hún er uppalin hjá Breiðabliki en lék meðal annars sem atvinnumaður með Älta í sænsku B-deildinni árin 2014 og 2015.

mbl.is