„Ótrúleg viðbrögð“ við ruslatunnuauglýsingum

Þessi auglýsing prýðir ruslatunnu í Glasgow.
Þessi auglýsing prýðir ruslatunnu í Glasgow. Ljósmynd/Stríðsmenn

Knattspyrnufélagið Stríðsmenn, sem leikur í fjórðu deild, fer óhefðbundnar leiðir í leit sinni að félagsmönnum fyrir næsta tímabil. Liðið hefur sett upp auglýsingar á ruslatunnum í Glasgow í Skotlandi, þar sem leitað er að leikmönnum fyrir næsta tímabil.

Yfirskrift auglýsingarinnar er „Þénaðu 2.000 pund eða meira á mánuði með því að vinna og spila á Íslandi“. 2.000 pund jafngilda um 320.000 krónum, og líklegt að þar sé vísað til lágmarkslauna á Íslandi. Við nánari athugun kemur í ljós að ekki stendur til að greiða leikmönnum fyrir spilið — eitthvað sem þau sem þekkja til íslenska boltans gátu sennilega sagt sér — heldur er hugmyndin að verða leikmönnum úti um atvinnu í Reykjavík.

Á heimasíðu félagsins má finna auglýsinguna á nokkrum tungumálum, svo ætla má að samskonar dreifibréf hafi verið sett upp í fleiri löndum Evrópusambandsins, en sérstaklega er tekið fram að umsækjendur skuli hafa evrópskt ríkisfang og geti því flutt hingað til lands og hafið vinnu hindrunarlaust.

Tækifæri til að taka ferilinn lengra

Saint Paul Edeh, fyrrum leikmaður Fram og fjórðudeildarliðsins Afríku, er þjálfari Stríðsmanna. Hann segir að liðið hafi síðustu þrjú ár leikið í utandeildinni, en nú sé hugmyndin að færa sig upp á næsta stig og því hafi hugmyndin um þetta frumlega ráðningarferli kviknað, en auglýsingarnar hafa einnig vakið athygli erlendra miðla.

„Viðtökurnar hafa verið ótrúlegar,“ segir Saint Paul. Tugir manna hafi haft samband við hann. „Þetta er frábært tækifæri fyrir leikmenn sem vilja taka framförum og prófa eitthvað nýtt,“ segir hann. Til stendur að taka um tíu menn inn í liðið og verða prufur haldnar 13.-17. janúar, 24.-28. febrúar og 23.-27. mars.

Saint Paul segir að ákveðið hafi verið að halda prufurnar hérlendis svo að tilvonandi leikmenn geti fengið smjörþefinn af Íslandi áður en þeir taka ákvörðun um að flytja hingað. Strax að þeim loknum fái leikmenn að vita hvort þeir komast í liðið eða ekki og þá taki við atvinnuleit.

En hefur Saint Paul engar áhyggjur af því að þurfa að verða tíu manns úti um vinnu?

„Nei, nei. Það er ekkert mál. Við erum ekki að leita að einhverjum störfum í upplýsingatækni,“ segir Saint Paul. Vöruhús, þrif, öryggisgæsla og þvíumlíkt séu starfsvettvangur liðsmanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert