Fyrst og fremst þakklátur Rúnari

Ólafur Jóhannesson og Rúnar Páll Sigmundsson á blaðamannafundi í dag.
Ólafur Jóhannesson og Rúnar Páll Sigmundsson á blaðamannafundi í dag. mbl.is/Jóhann Ingi

„Það er kominn einhver tími síðan þetta var fyrst reifað og ég þurfti aðeins að hugsa mig um,“ sagði Ólafur Jóhannesson, nýráðinn þjálfari karlaliðs Stjörnunnar í fótbolta í samtali við íslenska fjölmiðla í dag. Ólafur þjálfar liðið ásamt Rúnari Páli Sigmundssyni. 

„Ég sagði eftir síðasta mót að ég ætlaði að taka mér frí í einhvern tíma en svo kom löngunin aftur og þegar Rúnar hafði samband við mig fannst mér það spennandi,“ sagði Ólafur sem fékk fleiri fyrirspurnir eftir síðasta tímabil. 

„Það voru einhver lið sem höfðu samband við mig. Í haust var ég að fara í frí og var ekkert að hugsa um fótbolta. Ég þurfti aðeins að blása og koma mér frá þessu en þegar ég kom heim aftur var löngunin orðin það mikil að ég gat ekki sagt nei við þessu.“

Að sjálfsögðu stefnt að toppbaráttu

Ólafur vonast til að geta bætt við fleiri titlum á magnaða ferilskrá hjá Stjörnunni. „Það væri mjög gaman. Ég þekki leikmennina sem fótboltamenn en ég þarf aðeins að kynna mér þá sem manneskjur og karaktera betur. Að sjálfsögðu setjum við stefnuna á að vera í toppbaráttu.“

Hann hefur ekki áhyggur á ágreiningum á milli sín og Rúnars. 

„Þetta er nú bara fótbolti. Við erum búnir að ræða alla hluti fram og til baka. Þetta er nýtt fyrir mig og nýtt fyrir Rúnar. Ég er fyrst og fremst þakklátur að hann gefi mér það tækifæri að fá að vinna með sér. Auðvitað þurftum við að ræða marga hluti og eigum eftir að ræða miklu fleiri hluti. Við erum ákveðnir í að gera þetta eins vel og hægt er.“

Að sögn Ólafs er Stjarnan ekki að leita af leikmönnum fyrir næsta tímabil. „Við erum með ágætisleikmannahóp og svo fullt af ungum leikmönnum. Eins og staðan er núna erum við ekki að leita af neinum leikmönnum,“ sagði Ólafur. 

mbl.is