Gummi Tóta eftirsóttur

Guðmundur Þórarinsson hefur leikið með Norrköping síðustu þrjú ár.
Guðmundur Þórarinsson hefur leikið með Norrköping síðustu þrjú ár.

Allt útlit er fyrir að Guðmundur Þórarinsson muni yfirgefa sænska knattspyrnufélagið Norrköping í vetur en samningur hans rennur út um áramótin.

Daniel Kristoffersson, blaðamaður hjá Expressen í Svíþjóð, segir að Guðmundur hafi spilað sinn síðasta leik fyrir Norrköping um liðna helgi þegar hann mætti Djurgården í lokaumferð sænsku úrvalsdeildarinnar, og fékk reyndar að líta rauða spjaldið.

Samkvæmt búlgörskum miðlum er búlgarska félagið Levski Sofia á höttunum eftir Guðmundi. Levski er með Hólmar Örn Eyjólfsson í sínum herbúðum en þeir Guðmundur voru saman hjá Rosenborg í Noregi á sama tíma. 

Tema Sport í Búlgaríu segir að Levski muni fá mikla samkeppni um Guðmund sem sé einnig í sigtinu hjá nýkrýndum Svíþjóðarmeisturum Djurgården og hollenska félaginu Heerenveen, en fyrrnefndur Kristoffersson nefndi Heerenveen einnig til sögunnar.

Guðmundur, sem er 27 ára miðjumaður, kom til Norrköping frá Rosenborg árið 2017. Hann hefur einnig leikið í Danmörku, með Nordsjælland 2015-2016, eftir að hafa byrjað atvinnumannsferilinn hjá Sarpsborg í Noregi. Guðmundur lék fyrir uppeldisfélag sitt Selfoss sem og ÍBV hér á landi. Hann á að baki 5 vináttulandsleiki fyrir Ísland og var tvisvar í leikmannahópnum í Þjóðadeildinni fyrir ári, án þess þó að koma við sögu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert