Draumur Baldvins rættist - Kvarti ekki yfir erfiðum æfingum

Baldvin Rúnarsson (t.v.) á einum af leikjum Íslands á EM …
Baldvin Rúnarsson (t.v.) á einum af leikjum Íslands á EM 2016. Ljósmynd/Baldvin Rúnarsson

Baldvinsstofa var opnuð við hátíðlega athöfn í Hamri, félagsheimili Þórs Akureyri, í vikunni. Um er að ræða líkamsræktarsal sem Baldvin Rúnarsson dreymdi um að yrði að veruleika hjá sínu félagi, en salurinn er gjöf úr minningarsjóði Baldvins.

Minningarsjóðurinn var stofnaður af fjölskyldu og vinum Baldvins sem lést 31. maí síðastliðinn, 25 ára að aldrei, eftir fimm ára baráttu við krabbamein. Sjóðnum er ætlað að styrkja einstaklinga, hópa eða félög á sviði íþrótta- og mannúðarmála í anda Baldvins. Hópur fólks hljóp til styrktar sjóðnum í Reykjavíkurmaraþoninu í ágúst og þar með hafði nægt fé safnast til þess að byggja líkamsræktarsalinn.

„Það var draumur Baldvins að Þórsarar ættu sína eigin „rækt“ og þyrftu ekki að sækja þá þjónustu annað,“ sagði Ragnheiður Jakobsdóttir, móðir Baldvins, í ræðu við opnun Baldvinsstofu, að því er fram kemur á heimasíðu Þórs.

„Síðastliðið haust þegar verið var að starta enn og aftur styrktarþjálfun hér í þessum sal, tína saman það sem til var og bæta aðeins í safnið þá var hann sísuðandi í mér hvort fjölskyldufyrirtækið okkar gæti ekki klárað þetta dæmi og fengið nafn sitt á salinn. Þessi áhugi hans var kveikjan að þessu verkefni og það var ákveðið á fyrsta fundi sjóðsins að leggja til fjármuni og vinnu í það að bæta líkamsræktaraðstöðuna hér í Hamri og í kjölfar Reykjavíkurmaraþonsins í ágúst var orðið ljóst að við gætum farið „all in“ í verkefnið,“ sagði Ragnheiður.

Keypt voru ný tæki og tól sem alls vógu þrjú tonn og er Baldvinsstofa öll hin glæsilegasta. Hún mun án efa nýtast Þórsurum vel og Ragnheiður bað fólk að hafa í huga að kvarta ekki yfir erfiðum æfingum í salnum:

„„Show must go on“ voru skilaboð Baldvins til okkar hinna sem sitjum hér eftir og veltum fyrir okkur tilgangi lífsins. Hann bað okkur að halda áfram og hafa það hugfast að hafa gaman á þeirri leið. Og þeir íþróttamenn sem eiga eftir að æfa hér mættu hafa það hugfast að kvarta hvorki yfir leiðinlegum né erfiðum æfingum. Baldvin kvartaði aldrei og vildi ekki fá neina vorkunn þó að fjallið sem hann þurfti að klífa hafi verið töluvert brattara,“ sagði Ragnheiður.

Baldvinsstofa verður í Hamri, félagsheimili Þórsara.
Baldvinsstofa verður í Hamri, félagsheimili Þórsara. Ljósmynd/thorsport.is
mbl.is