Kórdrengir vilja fyrirliða Þróttar

Hreinn Ingi Örnólfsson í baráttu við Hákon Inga Jónsson.
Hreinn Ingi Örnólfsson í baráttu við Hákon Inga Jónsson. Eggert Jóhannesson

Miðvörðurinn stóri og stæðilegi, Hreinn Ingi Örnólfsson, gæti verið á förum frá Knattspyrnufélaginu Þrótti Reykjavík. Hreinn, sem varð samningslaus fyrr í haust, hefur enn ekki endurnýjað samning sinn í Laugardalnum.

Herma heimildir mbl.is að varnarmaðurinn hafi m.a. rætt við Kórdrengi, sem nú í sumar tryggðu sér sæti í 2. deild á komandi tímabili. Hafa forsvarsmenn Kórdrengja gefið það út að félagið ætli sér stóra hluti í sumar og er mikil áhersla lögð á að fá Hrein til liðsins. Ekki er víst að Hreinn samþykki boð félagsins, en hann liggur nú undir feldi.

Hreinn var fyrirliði Þróttar í sumar þegar félagið hafnaði í 10. sæti Inkasso-deildar karla í ár. Hann hefur verið á mála hjá félaginu frá árinu 2012, þar af fyrirliði síðustu tvö tímabil. Þjálfaraskipti urðu hjá Þrótti í vetur þegar Þórhallur Siggeirsson lét af störfum og við tók Gunnar Guðmundsson, fyrrverandi aðstoðarþjálfari Grindavíkur, í Pepsi-deild karla.

mbl.is