Pétur hættur - Hef fengið að taka þátt í ótrúlegu ævintýri

Pétur Viðarsson í leik með FH gegn Stjörnunni.
Pétur Viðarsson í leik með FH gegn Stjörnunni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Pétur Viðarsson, varnarmaðurinn öflugi í liði FH, hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna en hann hefur verið í stóru hlutverki í sigursælu liði FH í gegnum árin.

Pétur, sem er aðeins 32 ára gamall, hefur spilað tólf tímabil með Hafnarfjarðarliðinu og hefur á þeim tíma orðið fimm sinnum Íslandsmeistari með því og einu sinni bikarmeistari. Hann á að baki 250 leiki með liðinu, þar af 176 í efstu deild, og hefur í þeim skorað 12 mörk.

Pétur er annar lykilmaður FH sem leggur skóna á hilluna á skömmum tíma en frændi hans og fyrirliði FH-liðsins til margra ára, Davíð Þór Viðarsson, tilkynnti eftir tímabilið að hann sé hættur. Atli Guðnason gæti einnig bæst í þennan hóp en hann liggur undir feldi og mun taka ákvörðun um framtíð sína á næstu vikum.

„Þetta er búið að blunda í mér og ég held að þetta sé bara orðið gott. Þetta er búinn að vera ótrúlega skemmtilegur tími og frábær forréttindi að fá að spila fyrir þennan klúbb og taka þátt í velgengninni sem hefur verið hjá félaginu. Ég hef fengið að taka þátt í ótrúlegu ævintýri, Evrópuferðirnar allar og vinna marga titla með liðinu. Mér finnst eins og ég sé nýbyrjaður og fyndið að ég sé búinn að taka tólf tímabil með FH,“ sagði Pétur í samtali við mbl.is í morgun.

Aðrir hlutir í forgangi

Pétur rekur hinn afar vinsæla Pylsubar við Fjarðargötuna í Hafnarfirði og hefur í nógu að snúast á þeim vettvangi.

„Ég held að þetta sé rétti punkturinn að hætta. Ég gæti vel haldið áfram að spila en nú eru aðrir hlutir í forgangi hjá mér og það taka bara einhverjir aðrir við og leysa mig af hólmi. Ég skil mjög sáttur við ferilinn og er þakklátur öllu því fólki sem ég hef kynnst á þessum tíma og ekki síst liðsfélögunum í öll þessi ár. Þetta er búið að vera ótrúlega skemmtilegt og það er alls ekki sjálfgefið að taka þátt í velgengni eins og hefur verið hjá FH,“ sagði Pétur Viðarsson.

Baldur Sigurðsson gekk í raðir FH-inga frá Stjörnunni í gær og hann gæti hugsanlega leyst Pétur af hólmi í hjarta varnarinnar en Baldur hefur af og til spilað í stöðu miðvarðar hjá Garðabæjarliðinu.

Pétur Viðarsson með Íslandsbikarinn sem hann hefur fimm sinnum unnið …
Pétur Viðarsson með Íslandsbikarinn sem hann hefur fimm sinnum unnið með FH-ingum. mbl.is/Golli
mbl.is