Ísland í hópi verstu mótherja Englendinga

Kolbeinn Sigþórsson skorar sigurmarkið gegn Englandi á EM 2016.
Kolbeinn Sigþórsson skorar sigurmarkið gegn Englandi á EM 2016. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Englendingar leika annað kvöld sinn þúsundasta karlalandsleik í knattspyrnu þegar þeir taka á móti Svartfellingum í undankeppni EM í kvöld. 

Fyrsta leikinn léku Englendingar árið 1872 þegar þeir mættu Skotum í fyrsta opinbera knattspyrnulandsleik sögunnar, á krikketvelli í Glasgow, en þeirri viðureign lauk með markalausu jafntefli.

BBC er með ítarlega úttekt á þeim 999 landsleikjum sem Englendingar hafa leikið til þessa og þar koma fram margar forvitnilegar staðreyndir.

Ísland kemur við sögu að einu leyti. Sigurinn í Nice árið 2016 er hvergi nefndur til sögunnar, þótt ótrúlegt megi virðast, en Ísland er hinsvegar eina Evrópuþjóðin sem Englendingum hefur aldrei tekist að vinna á útivelli, af þeim sem þeir hafa á annað borð heimsótt.

Ísland og England gerðu jafntefli, 1:1, á Laugardalsvellinum í júní árið 1982, í einu heimsókn Englendinga hingað til lands með A-landslið sitt. Arnór Guðjohnsen kom Íslandi yfir eftir góðan undirbúning Atla Eðvaldssonar og Lárusar Guðmundssonar en Paul Goddard jafnaði metin eftir sendingu frá Glenn Hoddle.

Ísland er ennfremur ein átta þjóða sem er með jafna útkomu í landsleikjum sínum við England, sem er ágætt því England er með yfirhöndina í samanlögðum leikjum gegn 66 þjóðum af þeim 80 núverandi aðildarþjóðum FIFA sem þeir hafa mætt á knattspyrnuvellinum. 

Auk áðurnefnds jafnteflis og 2:1 sigursins á EM í Frakklandi hafa þjóðirnar einu sinni mæst á Englandi. Þá vann enska liðið stórsigur, 6:1, á alþjóðlegu móti í Manchester sumarið 2004. Útkoman er því einn sigur á hvora þjóð og eitt jafntefli.

Þær sex þjóðir sem hafa náð betri árangri gegn Englendingum en Íslendingar eru Brasilíumenn, Rúmenar, Úrúgvæjar, Hollendingar, Ítalir og Írar en þetta eru einu þjóðirnar sem eru með fleiri sigra en töp gegn enska landsliðinu í sögunni. England hefur unnið Brasilíu 4 sinnum í 26 viðureignum og Rúmeníu aðeins tvisvar í 11 viðureignum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert