Hverjir spila í heimsmetslátum?

Kolbeinn Sigþórsson verður í fremstu víglínu gegn Tyrkjunum.
Kolbeinn Sigþórsson verður í fremstu víglínu gegn Tyrkjunum. mbl.is/Hari

Ljóst er að í það minnsta tvær breytingar verða á byrjunarliði Íslands frá því í leiknum við heimsmeistara Frakka í síðasta mánuði, þegar það mætir Tyrklandi í Istanbúl í dag.

Leikið verður á „háværasta fótboltaleikvangi heims“, Türk Telekom-leikvanginum, og hefst leikurinn kl. 17 að íslenskum tíma. Jafntefli dygði Tyrkjum til að komast á EM, svo nýtt hávaðamet gæti hæglega verið sett, en sigur Íslands héldi lífi í vonum liðsins.

Lykilmennirnir Aron Einar Gunnarsson og Jóhann Berg Guðmundsson eru meiddir, sem og Rúnar Már Sigurjónsson, Albert Guðmundsson og Rúnar Alex Rúnarsson, auk þess sem Emil Hallfreðsson var ekki valinn. Þá er Viðar Örn Kjartansson veikur og missir af leiknum í dag en gæti mætt Moldóvu á sunnudag. Emil er sá eini þeirra sem tók þátt í síðasta landsleik, 2:0-sigrinum gegn Andorra, en þá höfðu Jóhann og Rúnar meiðst nokkrum dögum áður í 1:0-tapinu gegn Frökkum.

Ætla má að aftasta lína íslenska liðsins verði sú sama og gegn Frökkum; Hannes Þór Halldórsson í markinu en Guðlaugur Victor Pálsson, Kári Árnason, Ragnar Sigurðsson og Ari Freyr Skúlason í vörninni. Helst gæti farið svo að Ari yrði færður fram á kantinn og Hörður Björgvin Magnússon, sem missti af síðustu landsleikjum vegna meiðsla, fengi stöðu vinstri bakvarðar.

Birkir Bjarnason og Gylfi Þór Sigurðsson verða örugglega á miðjunni og spurning hvort Erik Hamrén láti duga að vera með tvo miðjumenn. Guðlaugur Victor gæti leikið sem varnarsinnaður miðjumaður og Hjörtur Hermannsson tekið stöðu hægri bakvarðar að nýju.

Arnór Ingvi Traustason spilar væntanlega á öðrum kantinum og annaðhvort Ari, Arnór Sigurðsson eða jafnvel Jón Daði Böðvarsson á hinum kantinum. Kolbeinn Sigþórsson verður eflaust í fremstu víglínu, hugsanlega með Alfreð Finnbogason eða Jón Daða sér við hlið. Mikael Anderson, Aron Elís Þrándarson, Samúel Kári Friðjónsson, Ingvar Jónsson og Hólmar Örn Eyjólfsson eiga allir möguleika á að spila sinn fyrsta leik í undankeppni stórmóts.

Sjá greinina í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert