Tyrkland á EM en Ísland á leið í umspil

Íslenska karlalandsliðið í fótbolta þarf að fara í umspil í lok mars til að eiga möguleika á að komast á EM næsta sumar. Liðið gerði markalaust jafntefli við Tyrkland í Istanbúl í kvöld og þar með eru Tyrkir og Frakkar öruggir um að komast áfram upp úr riðli Íslands í undankeppninni.

Ísland er fjórum stigum á eftir Tyrklandi og þremur á eftir Frakklandi en er með verri innbyrðis stöðu gegn Frökkum eftir töp í báðum leikjunum gegn þeim. Ísland fer því í umspil og það skýrist 22. nóvember hvaða liði eða liðum Ísland mætir þar.

Fyrri hálfleikur var afar tíðindalítill ef frá er talið leiðinlegt atvik eftir um tuttugu mínútna leik þegar Alfreð Finnbogason varð að fara meiddur af velli. Alfreð lenti illa á annarri hendinni þegar Caglar Söyuncu keyrði inn í hann úti við hliðarlínu, og gæti hafa brotið bein í hönd eða öxl. Arnór Sigurðsson kom inn á í hans stað.

Þó að Ísland hafi blásið til sóknar með Alfreð, Kolbein Sigþórsson og Jón Daða Böðvarsson alla í byrjunarliðinu þá tókst liðinu ekki að skapa sér neitt almennilegt færi í fyrri hálfleiknum. Litlu munaði reyndar að Kári Árnason kæmist í dauðafæri snemma leiks en markvörður Tyrkja var á undan í boltann og náði að slá hann í burtu. Tyrkir sköpuðu sér sömuleiðis varla færi, fyrir utan eitt mjög gott skallafæri sem fyrirliðinn Burak Yilmaz nýtti ekki.

Staðan var því markalaus í hálfleik en ljóst var að jafntefli myndi duga Tyrkjum til að tryggja sér endanlega sæti á EM. Það nýttu Tyrkir sér í leiknum og héldu boltanum ágætlega í seinni hálfleik þegar þeir fengu færi á. 

Ísland missti annan leikmann af velli vegna meiðsla um miðjan seinni hálfleik, þegar Arnór Ingvi Traustason fór af velli. Hörður Björgvin Magnússon kom inn á í hans stað og hann var grátlega nálægt því að koma Íslandi yfir á 84. mínútu, þegar skalli hans var varinn af varnarmanni á marklínu.

Ísland náði upp góðri pressu á lokamínútum leiksins en það dugði ekki til. Hannes Þór Halldórsson hljóp meira að segja fram í teiginn í síðustu hornspyrnunni en Tyrkir stóðu hana af sér eins og annað og eru öruggir um sæti á EM.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

Tyrkland 0:0 Ísland opna loka
90. mín. Gylfi tekur aukaspyrnu á vallarhelmingi Tyrkja og sendir boltann inn í teig en heimamenn koma honum í burtu. Jón Daði telur að brotið hafi verið á sér og kallar á dómarann en Taylor lætur sér fátt um finnast.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert