Við biðum kannski of lengi

Gylfi Þór Sigurðsson í leiknum í kvöld.
Gylfi Þór Sigurðsson í leiknum í kvöld. AFP

„Þetta er svekkjandi,“ sagði Gylfi Þór Sigurðsson, landsliðsmaður í fótbolta, í samtali við RÚV eftir markalaust jafntefli við Tyrkland á útivelli í undankeppni EM í kvöld. Úrslitin þýða að Ísland á ekki möguleika á að komast beint á EM, heldur bíður umspil í mars. 

„Við vorum ekki mjög langt frá þessu. Skipulagið gekk nokkuð vel og við héldum okkur inn í leiknum. Við biðum kannski aðeins of lengi en svona er þetta,“ sagði Gylfi, en íslenska liðið sótti ekki af miklum krafti fyrr en í lokin. 

„Eftir á að hyggja er auðvelt að segja það, en ef þetta hefði gengið upp þá hefði þetta verið rétt ákvörðun en þetta er mjög svekkjandi að hafa beðið fram á 80. mínútu og reynt að byrja þá að dæla löngum boltum inn. Þeir voru í basli með Jón Daða og Kolbein frammi.“

Hörður Björgvin Magnússon fékk besta færi Íslands í leiknum en Tyrkir björguðu á línu er hann skallaði að marki skömmu fyrir leikslok. 

„Þetta var einmitt það sem við vorum að bíða eftir. Við vorum að bíða eftir föstum leikatriðum og að koma boltanum inn í boxið því við vissum að við værum með sterka menn frammi. Því miður gekk þetta ekki í þetta skiptið.“

Síðasti leikur Íslands í undankeppninni er gegn Moldóvu ytra á sunnudag, en ljóst er að ekki er mikið undir í þeim leik. 

„Þar eru þrjú stig og við viljum enda þessa undankeppni vel og við gerum það með að ná jafntefli í dag og ná sigri í síðasta leiknum með stæl,“ sagði Gylfi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert