Íslensk markaveisla gegn Grikkjum

Byrjunarlið Íslands í dag.
Byrjunarlið Íslands í dag. Ljósmynd/KSÍ

Íslenska U19 ára landslið karla í fótbolta vann flottan 5:2-sigur á Grikklandi í öðrum leik sínum í undankeppni Evrópumótsins Í Belgíu í dag. Íslenska liðið er með þrjú stig eftir tvo leiki, en liðið tapaði fyrir Belgíu í fyrstu umferð. 

Fylkismaðurinn Orri Hrafn Kjartansson sem leikur með Heerenveen skoraði eina mark fyrri hálfleiks á 19. mínútu og Valgeir Valgeirsson, sem gerði góða hluti með HK í úrvalsdeildinni í sumar, bætti við marki á 57. mínútu. 

Kristall Máni Ingason, leikmaður FC Köbenhavn og áður Fjölnis, bætti við þriðja marki Íslands á 61. mínútu og Skagamaðurinn Ísak Bergmann Jóhannesson, 16 ára leikmaður Norrköping, gerði það fjórða á 66. mínútu, áður en Kristall bætti við sínu öðru marki á 73. mínútu. 

Grikkir klóruðu í bakkann með tveimur mörkum á síðustu ellefu mínútunum og þar við sat. 

Ísland mætir Albaníu í lokaleik sínum í riðlinum á þriðjudaginn kemur og stendur nú vel að vígi með að komast áfram í milliriðil en þangað fara tvö efstu liðin. Belgía er með 6 stig, Ísland 3, Grikkland 3 og Albanía ekkert fyrir lokaumferðina. Sigur á Albönum kemur íslenska liðinu örugglega áfram og liðið gæti jafnvel sloppið með tap ef Grikkir tapa fyrir Belgum.

Byrjunarlið Íslands:

Jökull Andrésson 

Valgeir Valgeirsson

Atli Barkarson

Teitur Magnússon

Andri Fannar Baldursson

Andri Lucas Guðjohnsen

Kristall Máni Ingason

Baldur Hannes Stefánsson

Jón Gísli Eyland Gíslason

Ísak Bergmann Jóhannesson

Orri Hrafn Kjartansson

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert