Fyrsti keppnisleikurinn í byrjunarliðinu

Mikael Neville Anderson spilaði sinn annan A-landsleik á fimmtudaginn þegar …
Mikael Neville Anderson spilaði sinn annan A-landsleik á fimmtudaginn þegar hann kom inn á sem varamaður gegn Tyrkjum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mikael Neville Anderson er í byrjunarliði íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu sem mætir Moldóvu í undankeppni EM á Zimbru-vellinum í Chisinau í Moldóvu í dag. Erik Hamrén, þjálfari íslenska liðsins, gerir þrjár breytingar á byrjunarliðinu sem gerði markalaust jafntefli gegn Tyrkjum í Istanbúl á fimmtudaginn. 

Mikael Neville byrjar sinn fyrsta keppnislandsleik á ferlinum en hann var í byrjunarliði Íslands í vináttulandsleik gegn Indónesíu í janúar 2018. Mikael á að baki tvo A-landsleiki fyrir Ísland. Þá koma þeir Arnór Sigurðsson og Sverrir Ingi Ingason báðir inn í byrjunarlið Íslands.

Alfreð Finnbogason er ekki með vegna meiðsla og þá fá þeir Arnór Ingvi Traustason og Kári Árnason sér sæti á bekknum. Kolbeinn Sigþórsson og Jón Daði Böðvarsson byrja í fremstu víglínu en Jón Daði byrjaði á vinstri kantinum gegn Tyrkjum.

Erik Hamrén stillir upp í leikkerfið 4-4-2 en íslenska liðið þarf á stigi að halda til þess að tryggja sér þriðja sæti H-riðils en Moldóvar eru í neðsta sætinu með 3 stig, einu stigi minna en Andorra.

Byrjunarlið Íslands:

Markvörður: Hannes Þór Halldórsson.

Varnarmenn: Guðlaugur Victor Pálsson, Sverrir Ingi Ingason, Ragnar Sigurðsson, Ari Freyr Skúlason.

Miðjumenn: Arnór Sigurðsson, Gylfi Sigurðsson, Birkir Bjarnason, Mikael Neville Anderson.

Sóknarmenn: Kolbeinn Sigþórsson, Jón Daði Böðvarsson.

mbl.is