Jákvæður endir á undankeppninni

Birkir Bjarnason skoraði fyrra mark Íslands.
Birkir Bjarnason skoraði fyrra mark Íslands. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ísland lauk leik í H-riðli í undankeppni EM karla í fótbolta með 2:1-útisigri á Moldóvu í kvöld. Gylfi Þór Sigurðsson skoraði sigurmarkið á 65. mínútu, eftir að Birkir Bjarnason kom Íslandi yfir í fyrri hálfleik. 

Ísland var töluvert sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og skapaði sér nokkuð mörg færi. Birkir Bjarnason var sérstaklega áberandi og var það við hæfi að hann skoraði fyrsta mark leiksins á 17. mínútu. Hann kláraði þá vel innan teigs eftir skemmtilegan samleik við Ara Frey Skúlason og Mikael Anderson. 

Birkir fékk tvö færi til að bæta við sínu öðru marki og öðru marki Íslands, en hann negldi boltanum í slána á 26. mínútu og tíu mínútum síðar átti hann skot í stöngina eftir aukaspyrnu Gylfa Þórs Sigurðssonar. 

Viðar Örn Kjartansson, sem kom inn á sem varamaður eftir að Kolbeinn Sigþórsson meiddist á ökkla á 28. mínútu, fékk ákjósanlegt færi undir lok hálfleiksins er hann slapp einn í gegn eftir skemmtilega hælsendingu Gylfa, en Alexei Koselev í marki Moldóva varði vel. Hinum megin þurfti Hannes Þór Halldórsson ekki að taka á honum stóra sínum í markinu. 

Heimamenn spiluðu betur í upphafi seinni hálfleiks og uppskáru jöfnunarmark á 57. mínútu. Nicolae Milinceanu kláraði þá vel innan teigs eftir fyrirgjöf frá Sergiu Platica, en hann var óvaldaður inni í markteig Íslands. 

Ísland svaraði með nokkrum hættulegum sóknum og ein slík skilaði sigurmarkinu á 65. mínútu leiks. Gylfi Þór kláraði þá vel innan teigs eftir að Alexei Koselev í marki Moldóva sló boltann frá eftir fyrirgjöf Viðars Arnar.

Gylfi fékk nokkur tækifæri til að skora annað mark sitt og það besta kom á 78. mínútu en þá varði Koselev glæsilega frá Gylfa af vítapunktinum eftir að Arnór Sigurðsson var felldur innan teigs. Það kom hins vegar ekki að sök og Ísland gat fagnað sínum öðrum útisigri í riðlinum.

Ísland leikur í umspili um sæti í lokakeppninni í mars.  

Lokastaðan í riðlinum: 

Frakkland 25
Tyrkland 23
Ísland 19
Albanía 13
Andorra 4
Moldóva 3

Moldóva 1:2 Ísland opna loka
90. mín. Catalin Carp (Moldóva) fer af velli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert