Katrín til liðs við KR

Katrín Ásbjörnsdóttir
Katrín Ásbjörnsdóttir Ljósmynd/KR

Kvennalið KR í knattspyrnu heldur áfram að styrkja sig fyrir baráttuna á næstu leiktíð en í dag gekk Katrín Ásbjörnsdóttir til liðs við KR og gerði tveggja ára samning.

Katrín er uppalin KR-ingur en fór frá félaginu árið 2012 til Þórs/KA og varð Íslandsmeistari með liðinu. Árið 2015 lék hún með Klepp í Noregi og fór þaðan til Stjörnunnar sem hún lék með frá 2016-18 og var Íslandsmeistari með Garðabæjarliðinu árið 2016. Hún var í barneignafríi og lék ekkert á nýliðnu keppnistímabili.

Katrín, sem er 27 ára gömul, hefur spilað 166 leiki í efstu deild og hefur í þeim skorað 70 mörk. Þá hefur hún spilað 19 leiki með A-landsliðinu og skorað í þeim eitt mark.

Katrín er fjórði leikmaðurinn sem KR fær til sín á skömmum tíma en hinir þrír voru Lára Kristín Pedersen, Ana Cate og Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert