Brandur aftur í dönsku deildina?

Brandur Olsen í leik með FH í sumar.
Brandur Olsen í leik með FH í sumar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Færeyski knattspyrnumaðurinn Brandur Olsen sem hefur spilað með FH undanfarin tvö ár og er samningsbundinn Hafnarfjarðarliðinu út tímabilið 2021 gæti verið á leið aftur í dönsku úrvalsdeildina.

Brandur sagði í viðtali við færeyska fjölmiðla í vikunni að hann vilji gjarnan komast í sterkari deild en hann lék með dönsku liðunum FC Köbenhavn og Randers áður en hann kom til FH.

Ég get staðfest að það er áhugi frá nokkrum skandinavískum félögum. Við erum í góðum samræðum við FH og saman erum við að vinna að því að finna réttan klúbb fyrir Brandur, sem langar til að prófa sig á hærra stigi, segir Jákup í Stórustovu, umboðsmaður Brandur Olsen, við danska fjölmiðilinn tipsbladet.dk.

Brandur, sem er 23 ára gamall, hefur skorað 16 mörk í 52 leikjum með FH í öllum keppnum. Hann er lykilmaður í færeyska landsliðinu og hefur skorað þrjú mörk með því í 32 leikjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert