Arnar Grétarsson rekinn

Arnar Grétarsson er hættur sem þjálfari Roeselare.
Arnar Grétarsson er hættur sem þjálfari Roeselare. mbl.is/Eva Björk

Belgíska knattspyrnufélagið Roeselare hefur sagt þjálfaranum Arnari Grétarssyni upp starfi en hann tók við liðinu fyrir fjórum mánuðum, nokkrum dögum áður en keppnistímabilið hófst í Belgíu.

Roeselare hefur vegnað illa í belgísku B-deildinni á þessari leiktíð og aðeins unnið þrjá leiki af 16, gert þrjú jafntefli en tapað tíu leikjum og situr á botni deildarinnar. Félagið rambaði á barmi gjaldþrots í september en náði að rétta sig af á síðustu stundu.

Á Facebook-síðu sinni þakkar Arnar öllum hjá Roeselare fyrir tækifærið sem hann fékk og kveðst hafa notið hverrar mínútu, þrátt fyrir að stundum hafi hlutirnir verið erfiðir.

„Ég held að næsti þjálfari sem kemur inn verði með góðan hóp til að vinna með, í mun betra formi og ástandi en þegar ég kom í lok júlí. Ég hef fulla trú á að þessi hópur geti gert góða hluti í deildinni og óska nýjum þjálfara alls hins besta,“ skrifar Arnar.

Þar með hafa báðir íslensku þjálfararnir sem hófu tímabilið í belgísku B-deildinni verið reknir. Stefán Gíslason tók við liði Lommel í sumar en hlaut sömu örlög og Arnar fyrir nokkrum vikum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert