Birkir lék meiddur — Líklegt að landsliðsferlinum sé lokið

Birkir Már Sævarsson spilaði meiddur stærstan hluta tímabilsins með Val …
Birkir Már Sævarsson spilaði meiddur stærstan hluta tímabilsins með Val í ár. mbl.is/Kristinn Magnúss.

Birkir Már Sævarsson glímdi við meiðsli þrjá síðustu mánuði Íslandsmótsins í fótbolta en missti þó ekki af einum einasta leik með Val af þeim sökum. Hann segir líklegt að hann hafi spilað sinn síðasta landsleik.

Fram kom á blaðamannafundi fyrir síðustu tvo landsleiki Íslands í undankeppni EM fyrr í þessum mánuði að Birkir glímdi við meiðsli. Hann er með beinmar í ökkla eftir að hafa meiðst í lok júní, en greiningu á meiðslunum fékk hann ekki fyrr en um miðjan október eftir að hafa verið valinn í landsliðið fyrir leiki við Frakkland og Andorra. Hann lét vita af meiðslunum fyrir leikina við Tyrkland og Moldóvu.

„Ég fór í myndatöku í síðasta mánuði til að fá úr þessu skorið því ég var búinn að vera að drepast í ökklanum síðan í sumar. Ég sneri mig frekar illa í leik á móti HK [30. júní] en spilaði samt í gegnum þetta og missti ekki af neinum leik út af þessu. En þegar ég var svo þarna með landsliðinu í október og lækna í kringum mig ákvað ég að skoða hvort ég kæmist ekki í MRI-skönnun, og þá kom hellingur af rugli í ökklanum í ljós,“ segir Birkir við mbl.is.

Bað Frey um að vera ekki valinn

„Beinmarið er helsta vandamálið, en svo var skemmd í liðbandi og einhver vökvi þarna. Til að jafna mig þarf ég bara að bíða. Ég gæti tæknilega séð æft og spilað eins og í sumar, en það er ekki þess virði að þjösnast á þessu núna. Ég vissi að ég yrði bara varamaður ef ég yrði valinn og ræddi þetta við Freysa [Frey Alexandersson aðstoðarlandsliðsþjálfara] og sagði honum að velja mig ekki því ég nennti ekki að fresta batanum. Ég veit ekkert hvort að ætlunin var að velja mig, en hafði samband snemma til að láta vita að ég vildi hvíla mig og freista þess að verða orðinn góður eftir jólafríið,“ segir Birkir.

Birkir Már Sævarsson í baráttu við Blaise Matuidi í leik …
Birkir Már Sævarsson í baráttu við Blaise Matuidi í leik í mars sem gæti reynst hans síðasti landsleikur. AFP

Birkir á að baki 90 A-landsleiki en hann lék síðast með liðinu í leikjum við Frakkland og Andorra í mars. Hann var óvænt ekki í 23 manna hópnum í leikjunum gegn Albaníu og Tyrklandi í júní á Laugardalsvelli, var ekki í hópnum í leikjum í september en valinn að nýju í október. Aðspurður hvort hann gæli við að fá að taka þátt í umspilinu í mars, og EM næsta sumar ef Ísland kemst þangað, segir Birkir:

Ekki hættur í landsliðinu en ekki með miklar vonir

„Það væri náttúrulega alveg geðveikt að fá að vera með og ég er ekkert opinberlega hættur í landsliðinu. En eins og þetta hefur verið undanfarið þá finnst mér ekkert líklegt að ég verði valinn aftur. Ef allir eru heilir er hópurinn nokkuð fastur eins og hann hefur verið í síðustu verkefnum. En svo getur ýmislegt komið upp á og ef að kallið kemur þá gef ég kost á mér. En ég held að þessir menn sem eru í hópnum núna séu að fara að leysa þetta. Ég er því ekki með neinar risavonir um að verða valinn,“ segir Birkir. Óttast hann þá ekki sem sagt að landsleikirnir verði ekki fleiri?

Birkir Már Sævarsson hefur farið með Íslandi á EM og …
Birkir Már Sævarsson hefur farið með Íslandi á EM og HM og spilað alla átta leiki liðsins á stórmótum hingað til. mbl.is/Eggert

„Ég óttast það ekki beint, en það er alveg líklegt að það sé tilfellið. Ég var eiginlega búinn að sætta mig við það eftir sumarverkefnið en svo var ég valinn aftur og veit ekki alveg hvernig staðan er, en þegar ég lít yfir hópinn þá finnst mér eins og hópurinn sé mótaður. En ég er alveg tilbúinn að koma inn í hópinn,“ segir Birkir. En telur hann ósanngjarnt að eftir frammistöðu sína með landsliðinu mörg síðustu ár sé hann ekki lengur hluti af hópnum?

„Ég átti samtal við þjálfarana og við bara töluðum saman eins og menn. Það var ekkert drama í þessu. Ég var auðvitað ekki ánægður þarna í sumar þegar mér var hent upp í stúku en við áttum bara gott samtal og ekkert vesen,“ segir Birkir yfirvegaður.

mbl.is