Stúlkurnar til Hollands og Ungverjalands

Stúlkurnar í U19 ára landsliðinu fagna marki í undanriðlinum sem …
Stúlkurnar í U19 ára landsliðinu fagna marki í undanriðlinum sem leikinn var hér á landi í haust. mbl.is/Eggert

Íslensku stúlknalandsliðin í knattspyrnu, U19 ára og U17 ára, fara til Hollands og Ungverjalands til að spila í milliriðlum Evrópukeppninnar 2019-20 í þessum aldursflokkum næsta vor. Bæði liðin fóru á sannfærandi hátt upp úr sínum undanriðli EM í haust.

Íslenska U19 ára liðið fer til Hollands og er þar í riðli með Hollandi, Skotlandi og Rúmeníu en leikið er 8. til 14. apríl. Sigurliðið í þessum riðli fer í átta liða úrslitakeppnina um Evrópumeistaratitilinn sem fer fram í Georgíu í lok júlí.

Íslenska U17 ára liðið fer til Ungverjalands og er þar í riðli með Ungverjalandi, Rússlandi og Rúmeníu en leikið er 18.-24. mars. Sigurliðið í þessum riðli leikur í átta liða úrslitakeppni um Evrópumeistaratitilinn sem fer fram í Svíþjóð í maí.

Um leið var dregið í riðla fyrir undankeppni yngri landsliðanna fyrir tímabilið 2020-2021 en þá verða nýir árgangar teknir við.

Íslenska U19 ára stúlknaliðið fer til Búlgaríu 21.-27. október og verður þar í riðli með Finnlandi, Búlgaríu og Georgíu. Tvö efstu liðin komast áfram í milliriðla ásamt þremur liðum í þriðja sæti. Úrslitakeppni EM 2021 í þessum aldursflokki fer fram í Hvíta-Rússlandi.

Íslenska U17 ára stúlknaliðið fer til Eistlands 28. september til 4. október og verður þar í riðli með Frakklandi, Úkraínu og Eistlandi en tvö efstu liðin komast áfram í millriðla, ásamt fjórum liðum í þriðja sæti. Úrslitakeppni EM 2021 í þessum aldursflokki verður háð í Færeyjum það vor.

mbl.is