Á förum frá FH?

Steven Lennon hefur verið lykilmaður í liði FH undanfarin ár.
Steven Lennon hefur verið lykilmaður í liði FH undanfarin ár. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Steven Lennon, framherji knattspyrnuliðs FH í úrvalsdeild karla, gæti verið á förum frá félaginu en það er fótbolti.net sem greinir frá þessu í dag. Lennon er með samning við FH sem gildir út tímabilið en Skotinn er 31 árs gamall.

Samkvæmt heimildum fótbolta.net hefur umboðsskrifstofan Deadline Day Sport, sem er með Lennon á sínum snærum, haft samband við önnur lið í efstu deild og kannað áhuga þeirra á því að fá Skotann til liðs við sig.

Valur og KR eru nefnd til sögunnar sem hugsanlegir áfangastaðir leikmannsins en Deadline Day Sport á að hafa átt í viðræðum við bæði félög undanfarna daga. Lennon hefur ekki leikið með FH í Bose-mótinu sem er æfingamót sem hófst í byrjun nóvember.

Þá er FH sagt skulda leikmanninum laun en hann gekk til liðs við Fimleikafélagið árið 2014. Lennon á að baki 147 leiki í efstu deild með FH og Fram þar sem hann hefur skorað 71 mark en hann hefur verið einn besti leikmaður FH undanfarin ár.

mbl.is