Strákarnir fara til Ítalíu í mars

U19 ára liðið sem komst áfram úr undanriðli EM í …
U19 ára liðið sem komst áfram úr undanriðli EM í síðasta mánuði fyrir leik gegn Belgum. Ljósmynd/KSÍ

Íslenska U19 ára landsliðið í knattspyrnu karla fer til Ítalíu í lok mars til að spila í milliriðli Evrópukeppninnar í þessum aldursflokki.

Íslenska liðið komst áfram úr undanriðli í Belgíu í síðasta mánuði þar sem það vann mjög sannfærandi sigra á Grikkjum og Albönum og fór áfram ásamt belgíska liðinu.

Í milliriðlinum leika strákarnir, undir stjórn Þorvalds Örlygssonar, við Ítali, Norðmenn og Slóvena dagana 25. — 31. mars en sigurlið riðilsins kemst í átta liða úrslitakeppni EM  sem fram fer á Norður-Írlandi næsta sumar.

Þá var dregið í riðla fyrir næstu tvær undankeppnir U19 ára liða en þar verður keppnisfyrirkomulaginu breytt eftir ár.

Næsta U19 ára lið leikur í haust í riðli með Noregi, Ungverjalandi og Andorra en það er undankeppni fyrir EM 2021.

Í haust byrjar líka undankeppni fyrir EM 2022 en í þessum aldursflokki verður framvegis spilað í deildum á svipaðan hátt og í Þjóðadeild UEFA. Skipt er í þrjár deildir samkvæmt styrkleikaflokkun U19 ára liða.  Ísland er í B-deild og verður í riðli með Ungverjalandi, Rúmeníu og Kýpur.

Enn fremur var dregið í riðla fyrir undankeppni U17 ára liða karla sem verður leikin næsta haust. Ísland er þar í riðli með Austurríki, Noregi og Moldóvu.

mbl.is