Landsliðið til Póllands?

Leikurinn yrði hluti af lokaundirbúningi íslenska liðsins fyrir EM, fari …
Leikurinn yrði hluti af lokaundirbúningi íslenska liðsins fyrir EM, fari svo að Ísland vinni sér inn sæti á lokamótinu. mbl.is/Hari

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu mætir Póllandi í vináttulandsleik þann 9. júní á næsta ári en það eru pólskir fjölmiðlar sem greina frá þessu. Leikurinn mun fara fram í Poznan en EM í knattspyrnu hefst þann 12. júní með leik Tyrkja og Ítala í Róm.

Pólland tryggði sér sæti á EM á dögunum en liðið leikur E-riðli EM ásamt Spánverjum og Svíþjóð. Ekki er ennþá ljóst hvaða lið verður fjórða liðið í E-riðli en riðillinn verður leikinn á Írlandi og á Spáni.

Ísland er á leið í umspil í mars þar sem liðið mætir Rúmeníu í undanúrslitum. Fari svo að Íslandi takist að vinna sér sæti á EM leikur Ísland í dauðariðli keppninnar ásamt heimsmeisturum Frakklands, Þýskalandi og Evrópumeisturum Portúgals.

Íslenska knattspyrnusambandið, KSÍ, hefur ekki staðfest þessar fréttir pólsku fjölmiðlanna en knattspyrnusambandið hefur unnið að því undanfarna daga að finna mögulega mótherja fyrir landsliðið í vináttulandsleikjum næsta árs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert