Blikar fá öflugan liðsauka

Sveindís Jane Jónsdóttir í búningi Breiðabliks.
Sveindís Jane Jónsdóttir í búningi Breiðabliks. Ljósmynd/Breiðablik

Breiðablik hefur fengið góðan liðsauka fyrir næsta keppnistímabil í fótboltanum því framherjinn Sveindís Jane Jónsdóttir er komin til félagsins í láni frá Keflvíkingum.

Sveindís, sem er 18 ára gömul, vakti mikla athygli með Keflavík í úrvalsdeildinni á síðasta keppnistímabili. Hún hefur þegar skorað 49 mörk í 75 leikjum í deildakeppninni með Keflavíkurliðinu og á sínu fyrsta ári í efstu deild 2019 skoraði hún 7 mörk í 17 leikjum. Hún var besti leikmaður deildarinnar samkvæmt einkunnagjöf Morgunblaðsins 2019 og var heiðruð sérstaklega fyrir það í mótslok.

Þá hefur Sveindís skorað 21 mark í 38 leikjum fyrir yngri landslið Íslands og er í U19 ára landsliðinu sem hefur tryggt sér sæti í milliriðli Evrópukeppninnar síðar í vetur.

mbl.is